Bretarnir sem fóru beint norður ekki taldir með

Um átján hundruð farþegar sátu í þotum bresku ferðaskrifstofunnar Super Break sem lentu á Akureyrarflugvelli í ársbyrjun. Sá hópur dregur aðeins úr fækkun breskra ferðamanna í ár.

Bæjarstjórinn á Akureyri og ráðherra ferðamála tóku á móti farþegunum í fyrsta flugi Super Break til Akureyrar í janúar. Mynd: Super Break

Yfir vetrarmánuðina eru Bretar fjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi en þeim fækkaði hins vegar um nærri 4.400 fyrstu þrjá mánuði ársins. Er þá horft til talningar Ferðamálastofu á brottförum erlendra flugfarþega frá Keflavíkurflugvelli. Inn í þessari tölu eru því ekki þeir Bretar sem komu hingað á vegum bresku ferðaskrifstofunnar Super Break í janúar, febrúar og mars. Þeir flugu nefnilega beint til Akureyrar og fóru því ekki í gegnum formlegu talninguna sem er við vopnahliðin í Leifsstöð.

Tölur frá breskum flugmálayfirvöldum herma að samtals hafi 3.525 farþegar flogið milli Akureyrar og Bretlands þessa þrjá fyrstu mánuði ársins. Þar sem farþegarnir eru taldir á útleið og heimleið þá verður að deila tölunni í tvennt og því má gera ráð fyrir að bresku ferðamennirnir, sem flugu til Akureyrar, hafi verið nærri átján hundruð á fyrsta ársfjórðungi. Þar með nemur samdrátturinn í komum breskra ferðamanna ekki 4.400 einstaklingum heldur um 2.600. Það er töluverð sárabót og sérstaklega þegar horft er til þess að þeir ferðamenn sem flugu beint norður voru í skipulögðum ferðum um Norðurland og gistu því þar. Þar með fjölgaði gistinóttum á Norðurlandi umtalsvert fyrstu mánuði ársins.

Það verður hins vegar að setja þann fyrirvara við þessa útreikninga að tvær þotur Super Break þurftu að lenda á Keflavíkurflugvelli vegna slæmra veðurskilyrða fyrir norðan. Það ruglar talninguna. Og sem fyrr verður líka að hafa í huga við tölurnar frá Keflavíkurflugvelli að útlendingar búsettir á Íslandi og hluti tengifarþega eru taldir sem erlendir ferðamenn.