Cleveland komið með Evrópuflug á ný

Nú er nafn næst stærstu borgar Ohio fylkis í Bandaríkjunum komið á upplýsingaskjáina í Leifsstöð.

Cleveland Metroparks Mynd: Keith Berr / ThisisCleveland.com

Fyrsta flug WOW air til Cleveland var flogið í gærkvöldi og mun flugfélagið fljúga þangað alla þriðjudaga, fimmtudaga, laugardaga og sunnudaga. Áætlunin nær fram á haustið en samkvæmt Svanhvíti Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW, hefur ekki verið ákveðið hvort fluginu verði á boðstólum í vetur.

Það tekur sex og hálfan klukkutíma að fljúga til Cleveland og lenda þotur WOW rétt fyrir miðnætti að staðartíma. Þetta er í fyrsta skipti í níu ár sem flug til Evrópu býðst íbúum Cleveland.

„Þetta flug markar upphaf nýs tíma fyrir íbúa Ohio-ríkis sem geta nú flogið beint til Íslands og þaðan áfram til Evrópu. Lág fargjöld WOW air gera fólki kleift að láta drauma sína um frí í Evrópu rætast,“ segir Robert Kennedy, framkvæmdastjóri Cleveland Hopkins International flugvallar. Þess má geta að síðar í þessum mánuði fer Icelandair jómfrúarferð sína til Cleveland.