Elstu flugfélög í heimi

Icelandair rekur sögu sína til ársins 1937 og þrátt fyrir aldurinn þá kemst íslenska flugfélagið ekki á lista yfir þau 5 elstu.

Mynd: Aman Bhargava

Af þeim flugfélögum sem ennþá eiga þotur í háloftunum þá er hið hollenska KLM elst. Félagið var sett á stofn 10 mánuðum eftir að Íslendingar fögnuðu fullveldi sínu 1918.

Og 18 árum eftir að KLM tók á loft í fyrsta sinn þá var Flugfélag Akureyrar, undanfari Icelandair, stofnað. Hin langa saga íslenska flugfélagsins dugar þó ekki til að komast á lista yfir þau fimm núlifandi flugfélög sem hafa verið lengst að og Sænska dagblaðið tók saman.

Þess má geta að flugfélögin í fjórða og fimmta sæti eru með Ísland á sinni dagskrá. Tékkneska flugfélagið flýgur hingað frá Prag á sumrin og það finnska frá Helsinki allt árið um kring.

Elstu flugfélög í heimi:

  1. KLM, 7. október 1919
  2. Qantas, 16 nóvember 1920
  3. Aeroflot, 9 febrúar 1923
  4. Czech airlines, 6. október 1923
  5. Finnair, 1. nóvember 1923