Ennþá hægt að fljúga út í vorveðrið um helgina

Á fimmtudag er uppstigningardagur og þar með gefst færi á langri helgi. Þó fyrirvarinn sé stuttur þá er ennþá hægt að finna flugmiða út í heim fyrir lítið.

barcelonna Camille Minouflet
Til Barcelona má komast um helgina fyrir um 30 þúsund krónur. Mynd: Camille Minouflet/Unsplash

Íbúar á meginlandi Evrópu ganga nú léttklæddir um stræti og frændur okkar á hinum Norðurlöndunum eru farnir að taka lit. Hér heima mælist hitinn hins vegar ennþá í eins stafa tölu og það eru útlit fyrir áframhaldandi vætutíð. Það eru því vafalítið margir sem gætu hugsað sér að nýta fríið á uppstigningardag til að fljúga út í heim og fá smá forskot á sumarið. Og þeir sem það gera hafa úr miklu að velja enda framboðið af millilandaflugi mikið. Það kostar þó oftast sitt að bóka svona stuttu fyrir brottför.

Það er engu að síður hægt að finna flugmiða til borga eins Barcelona, Stokkhólms, Helsinki og Óslóar fyrir innan við 30 þúsund krónur ef flogið er út á fimmtudag og heim aftur á sunnudag samkvæmt lauslegri athugun Túrista. Í sumum tilfellum borgar sig að fljúga með einu flugfélagi út og öðru heim og þeir sem geta verið út fram á mánudag fá oft ódýrara heimflug. Til að bera saman kostina er þægilegt að nota flugbókunarsíður eins og Kiwi en með því að slá inn heiti Keflavíkurflugvallar og brottfarardagsetningu þá finnur leitarvélin ódýrustu flugmiðana úr landi.

Til að skoða hvaða áfangastaðir eru á boðstólum má nota kortið hér sem sýnir þá alla og hvaða flugfélög fljúga hver.