Fá flugfélög á Keflavíkurflugvelli í hættu

Flugfélög sem ekki voru rekin með hagnaði í fyrra eiga sér ekki langa framtíð að mati forstjóra Ryanair. Samkvæmt þessari einföldu skilgreiningu þá ætti bróðurpartur þeirra flugfélaga sem fljúga til og frá landinu ekki að vera í vanda. Sum þeirra eru reyndar einkahlutafélög og birta jafnvel ekki upplýsingar um afkomuna.

Michael O´Leary forstjóri Ryanair. Myndir: Ryanair og Isavia

Olíutunnan kostar í dag um áttatíu dollara sem er tvöfalt hærra verð en greiða þurfti í ársbyrjun 2016. Í fyrra var olíuverðið að jafnaði um helmingi lægra en það er í dag og því er almennt spáð að verðið haldi áfram að hækka, meðal annars vegna mikillar spennu í samskiptum Írana og Bandaríkjamanna.

Kaup á þotueldsneyti vegur þungt í rekstri flugfélaga og getur hlutfallið verið allt að fjórðungur af öllum kostnaði fyrirtækjanna. Af þessum sökum telur Michael O’Leary, forstjóri írska flugfélagsins Ryanair, að veturinn verði mörgum evrópskum flugfélögum erfiður og sérstaklega þeim sem ekki voru rekin með hagnaði í fyrra þegar olíuverði var miklu lægra en það er í dag. Þetta kom fram í viðtalið við O’Leary á CNBC í gær og Viðskiptablaðið hefur sagt frá.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hinn opinskái forstjórinn gefur út dánarvottorð fyrir samkeppnisaðilana. Hann reyndist hafa rétt fyrir sér varðandi hið breska Monarch sem fór í þrot í fyrra og tók nærri því með sér íslensku Kortaþjónustuna í fallinu. O’Leary þreytist heldur ekki á því að lýsa því yfir að hann telji skuldastöðu Norwegian óviðráðanlega en norska lággjaldaflugfélagið er nokkuð stórtækt á Keflavíkurflugvelli og hefur síðustu mánuði boðið upp á áætlunarflug hingað frá þremur spænskum flugvöllum, tveimur í Noregi, Stokkhólmi og London. Rætist spá O’Leary myndi að öllu óbreyttu draga þónokkuð úr framboði á flugi hingað og þá sérstaklega vetrarferðunum yfir á meginland Spánar. Norwegian er þó ennþá í loftinu og nú reyna stjórnendur IAG, móðurfélags British Airways, að taka þetta stærsta flugfélag Norðurlanda yfir.

Í viðtalinu við CNBC tilgreinir O’Leary einnig hið ítalska Alitalia og TAP frá Portúgal sem flugfélög sem eigi sér ekki langa framtíð. En sem fyrr segir er mælistika Írans kjaftfora sú að flugfélög sem ekki voru rekin með afgangi í fyrra eigi erfiðan vetur framundan. Og eins og hér má sjá þá skiluðu flest þeirra flugfélaga sem fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli hagnaði í fyrra. Nokkur af fyrirtækjunum eru reyndar einkafélög og birta ekki alltaf opinberlega tölur um afkomuna.