Farþegum Icelandair fækkaði um 5 þúsund

Í nýliðnum apríl fækkaði farþegum Icelandair um tvo af hundraði og skýringinu er meðal annars að finna í færri erlendum ferðamönnum á leið til Íslands.

Mynd: Icelandair og skjámynd.

Framboð á ferðum á vegum Icelandair jókst um 8 prósent í apríl samanborið við sama tíma í fyrra. Farþegunum fækkaði hins vegar um 2 prósent og þar með var sætanýting félagsins nokkru verri en í apríl í fyrra. Þá voru páskarnir í þeim mánuði og það hefur áhrif samkvæmt því sem kemur fram í tilkynningu frá Icelandair Group. Þar sem segir jafnframt að megin skýringin á þessari neikvæðu þróun sé sú að farþegum á leið til Íslands fækkaði og það sama átti við um íslenska farþega á leið til útlanda. Hins vegar var viðbót í fjölda tengifarþega en þeir eru rúmur helmingur allra þeirra sem nýta sér áætlunarferðir flugfélagsins.

Í kauphallartilkynningu Icelandair Group kemur fram að farþegum Air Iceland Connect fjölgaði frá apríl í fyrra en þó hlutfallslega minna sem nam aukningu framboðs. Sama þróun var hjá hótelum fyrirtækisins því gestirnir voru fleiri en viðbótin hélst ekki í hendur við nýju herbergin sem eru aðallega tilkomin vegna Reykjavik Konsulat hótelsins sem opnaði í mars.