Ferðafólki farið að fækka

Í apríl fóru 4% færri erlendir farþegar frá Keflavíkurflugvelli en á sama tíma í fyrra. Þetta er í fyrsta skipti í síðan árið 2010 að ferðamönnum fækkar á milli ára.

Ferðamenn í röðum við Seljalandsfoss. Credit: Curren Podlesny / Unsplash

Allt frá árinu 2011 hefur ferðafólki hér á landi fjölgað verulega á milli tímabila en í mars síðastliðnum snarstöðvaðist sú þróun þegar vöxturinn mældist sáralítill. Í nýliðnum apríl fækkaði svo erlendu farþegunum sem innrituðu sig í flug frá Keflavíkurflugvelli um fjóra af hundraði samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Í heildina flugu 147.551 útlendingar frá landinu í apríl eða sex þúsund færri en í fyrra. Þar sem fólk er talið á leið frá landinu þá valda páskarnir ekki skekkju í apríltölunum að þessu sinni.

Þetta í fyrsta skipti síðan í september 2010 að það er neikvæður vöxtur á milli ára í þessari mánaðarlegu talningu og er þróunin ekki í takt við spár fyrir árið.  Hins vegar hafa forsvarsmenn Icelandair gefið út, nú síðast í byrjun maí, að eftirspurn meðal erlendra ferðamanna á leið til Íslands hafi dregist saman. Niðurstöður talningar Ferðamálastofu í dag eru í takt við þá þróun sem stjórnendur Icelandair hafa fundið.

Eins og sjá má á töflunni þá nær samdrátturinn til flestra þjóða í hópi ferðamanna á Íslandi. Áfram er þó verulega fjölgun í hópi Pólverja en eins og áður hefur verið rakið eru vísbendingar um að þar séu aðallega á ferðinni Pólverjar búsettir á Íslandi.

Allar líkur eru á að samdrátturinn í fjölda ferðamanna hafa verið nokkru meiri en 4% því erlendir ríkisborgarar sem búa á Íslandi eru taldir sem ferðamenn þegar þeir fljúga til og frá landinu. Einnig þeir farþegar sem skipta um flugfélag á Keflavíkurflugvelli á leið sinni milli Evrópu og N-Ameríku en hlutfall þess hóps mældist 11% í júlí í fyrra en 3% í nóvember.