Flugfélögin að hverfa frá Reykjavík

Höfuðstöðvar Icelandair og WOW air gætu verið á leið frá höfuðborginni.

icelandair wow
Myndir: Icelandair og WOW air

Í dag eru aðalskrifstofur Icelandair við Reykjavíkurflugvöll en fyrr en síðar gæti starfsemin flust annað. Þetta kom fram í máli Björgólfs Jóhannssonar, forstjóra Icelandair Group, á fundi fyrirtækisins þar sem afkoma fyrsta ársfjórðungs var kynnt. Sagði Björgólfur að núna væri skoðun á framtíðarstaðsetningu höfuðstöðva fyrirtækisins á lokastigi. Í því samhengi benti hann á að nú þegar væri hluti af rekstri Icelandair í Hafnarfirði og þar ætti fyrirtækið lóð sem nýta mætti undir nýja skrifstofubyggingu. Nánar tiltekið við Flugvelli í Vallarhverfi.

Ef af þessu verður er ljóst að bæði Icelandair og WOW air verða ekki lengur með heimilisfang í höfuðborginni því stjórnendur WOW air stefna að því að flytja í nýjar höfuðstöðvar við Vesturvör á Kársnesinu í Kópavogi.