Flugfélögin ekki í sérskoðun hjá stjórnvöldum

Breytingar í íslensku atvinnulífi kalla á áætlanir til að takast á við áföll í rekstri fyrirtækja sem flokka má sem þýðingarmikil fyrir efnahagslífið. Flugfélögin eru í þeim hópi.

icelandair wow
Flugfélögin ásamt skipafélögum og fjarskipta- og veitufyrirtækjum eru viðfangsefni starfshóps stjórnarráðsins.

Samráðshópur nokkurra ráðuneyta hefur undanfarnar vikur skoðað gerð viðbragðsáætlunar vegna hugsanlegra áfalla í rekstri mikilvægra atvinnufyrirtækja sem gætu kallað á viðbrögð af hálfu stjórnvalda. Ekki er horft sérstaklega til flugfélaga eða ferðaþjónustu samkvæmt því sem segir í svari samgönguráðuneytisins við fyrirspurn Túrista. En líkt og greint var frá, hér á síðunni í lok síðasta árs, þá var á byrjunarstigi vinna innan stjórnarráðsins við að leggja mat á nauðsyn þess að áætlun lægi fyrir ef íslensku millilandaflugfélögin myndi lenda í rekstrarerfiðleikum.

Nú er ekki aðeins horft til flugfélaganna í þessari vinnu stjórnvalda en í skýrslu Landsbankans sem kom út í haust var beint á að Ísland er efnahagslega háðara ferðaþjónustu en flest önnur lönd. „Verulegar truflanir á starfsemi flugfélaganna eða brottfall annars, hvað þá beggja flugfélaganna af markaðnum, myndi augljóslega hafa gríðarlegar afleiðingar fyrir ferðaþjónustu á Íslandi. Áhrifin yrðu einnig veruleg fyrir íslenskt efnahagskerfi í heild og almenning. Slíkt áfall hefði keðjuverkandi áhrif, m.a. á gengi krónunnar, eignaverð, vexti og verðbólgu,” segir jafnframt í greiningu bankans. Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri WOW air, sagði nýverið að það yrði mikið högg ef rekstur annars af stóru flugfélögunum myndi stöðvast.

Í fyrrnefndu svari samgönguráðuneytis kemur fram að hinn nýmyndaði starfshópur ráðuneytanna eigi að skoða viðbúnað vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á íslensku atvinnulífi og gjaldeyrissköpun, meðal annars í tengslum við samgöngur, ferðaþjónustu og nýsköpun. „Til dæmis eru fjarskipta- og veitufyrirtæki, flugfélög og skipafélög svo þýðingarmikil í íslensku efnahagslífi að tímabundin röskun á þjónustu þeirra hefur mikil áhrif á notendur og rekstur annarra aðila með efnahagslegu tjóni fyrir samfélagið allt. Það þarf því að greina ítarlega og undirbúa viðbragðsáætlun ef áföll komi upp í rekstri fyrirtækja sem gætu kallað á viðbrögð af hálfu stjórnvalda með skömmum fyrirvara,“ segir í svarinu.