Hefja flug milli Íslands og Rómar

Í vetur mun norska flugfélagið Norwegian fljúga tvisvar í viku hingað frá höfuðborg Ítalíu.

Norwegian heldur áfram að bæta í Íslandsflug sitt. Mynd: Norwegian

Skortur á áætlunarflugi milli Íslands og Ítalíu hefur verið áberandi síðustu ár og til að mynda hefur vetrarflugið milli landanna tveggja takmarkast við leiguflug í tengslum við skíðaferðir í janúar og febrúar. Á því verður nú breyting því frá og með lokum október mun norska lággjaldaflugfélagið Norwegian fljúga beint hingað frá Róm alla fimmtudaga og sunnudag. „Við trúum því að þessari flugleið verði vel tekið af Íslendingum og Ítölum,“ segir Astrid Mannion-Gibson í samtali við Túrista.

Þotur Norwegian, á leið til Rómar, munu taka á loft frá Keflavíkurflugvelli rétt fyrir hádegi en frá Róm er flogið klukkan sjö að morgni. Ódýrustu fargjöldin kosta núna um 11 þúsund krónur en sem fyrr segir hefst beina flugið ekki fyrr en í lok október. Þeir sem vilja halda til höfuðborgar Ítalíu fyrir þann tíma geta nýtt leitarvél Momondo til að sjá hver fargjöldin eru nú í sumar og haust.

Auk áætlunarflugs til Rómar þá býður Norwegian upp á ferðir hingað frá Ósló, Bergen, Barcelona, Madríd, Alicante, Stokkhólms og London. Síðast var flogið milli Íslands og Rómar sumarið 2016.

FLEIRI GREINAR: LEITIN AÐ BESTA HÓTELINU