Hugsanlega indverskar áhafnir

Í árslok hefur WOW air flug til Nýju Delí í Indlandi og ekki er útilokað að um borð verði Indverjar að störfum. Talsmaður flugfélagsins segir ætlunina að einbeita sér að Nýju Delí áður fleiri áfangastaðir verða kynntir.

wow gma Friðrik Örn Hjaltested
Mynd: Friðrik Örn Hjaltested / WOW air

Þegar lággjaldafélagið Norwegian hóf að fljúga til Taílands fyrir fimm árum síðan þá réði norska flugfélagið taílenskar áhafnir til starfa. Það voru því ekki skandinavískir flugfreyjur eða flugstjórar um borð. Með þessari ráðstöfun varð útgerð Norwegian í Asíu mun ódýrari en í Evrópu samkvæmt úttekt sem danska blaðið Berlingske gerði á sínum tíma. Þar kom fram að laun taílensku áhafnanna gætu orðið að lágmarki helmingi lægri en þeirra skandinavísku. Ástæðan fyrir þessu skrifast á almennan launamun milli Taílands og Norðurlanda.

Í lok þessa árs fer WOW air jómfrúarferð sína til Asíu, nánar tiltekið til Nýju Delí í Indlandi, og í ljósi þess að forsvarsmenn WOW air hafa sagst horfa til Norwegian þá spurði Túristi Svanhvíti Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW air, hvort það komi til greina að vera með indverskar eða asískar áhafnir í Indlandsflugi félagsins. „Við höfum ekki tekið ákvörðun varðandi það,“ segir í svari Svanhvítar. Í framhaldi spurði Túristi hvenær ákvörðun um indverskar áhafnir verði tekin og hvort þetta myndi nái til bæði flugliða og flugmanna. Ekki fengust svör við því.

Sem fyrr segir þá hefur WOW air flug til Nýju Delí í lok árs en á sama tíma bætast fjórar breiðþotur í flugflota félagsins. Það gæti því skapast rými fyrir fleiri áfangastaði í Asíu í leiðakerfi WOW og hefur Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri, sagt að hann sjái fyrir sér flug til nokkurra asískra borga. Aðspurð um hvenær tilkynnt verði um fleiri áfangastaði í Asíu þá segir Svanhvít að ætlunin sé að einbeita sér fyrst að Nýju Delí.