Icelandair horfir til Indlands

Forstjóri Icelandair Group segir félagið stefna á áætlunarflug til Asíu á næsta ári.

Frá Nýju-Delí. Mynd: Frank Holleman / Unsplash

Það tekur tæpa 10 klukkutíma að fljúga frá Keflavíkurflugvelli til Nýju-Delí og flugferðin til Mumbaí er litlu lengri. Og eftir rúmt ár gætu þessar indversku stórborgir bæst við leiðakerfi Icelandair því flugfélagið stefnir á Indlandsflug frá og með haustinu 2019. Þetta kom fram í máli Björgólfs Jóhannssonar, forstjóra Icelandair Group, á afkomufundi fyrirtækisins í morgun. Sagði hann að horft væri til áfangastaða á Indlandi en nefndi þó ekki hverjir þeir væru.

Það verður þó að telja líklegt að þessar tvær fjölmennustu borgir Indlands komi sterklega til greina. Bæði vegna stærðar og fluglengdar en til samanburðar tekur jafn langan tíma að fljúga til San Francisco í Kaliforníu og til Mumbaí. En Icelandair hefur flug á ný til San Francisco nú í sumarbyrjun.

Eins og áður hefur komið fram þá mun WOW air kynna áform sín um flug til Asíu í þessum mánuði.