Icelandair sækir á mið Airberlin

Í byrjun vetrar bætist þýska borgin Dusseldorf við leiðakerfi Icelandair en þar ætlar dótturfélag Lufthansa sér stóra hluti í flugi til Bandaríkjanna og fylla þannig það skarð sem Airberlin skyldi eftir sig.

Mynd: Icelandair

Forsvarsmenn Icelandair biðu ekki boðanna þegar stjórnendur Airberlin fóru fram á greiðslustöðvun í lok síðasta sumars. Aðeins þremur dögum eftir að beiðni þýska flugfélagsins var lögð fram þá boðaði Icelandair komu sína til Tegel flugvallar í vesturhluta Berlínar en þaðan hafði Airberlin m.a. boðið upp á áætlunarferðir til Bandaríkjanna. Þetta næststærsta flugfélag Þýskalands fór svo á hausinn í vetrarbyrjun og skyldi þá ekki aðeins eftir sig stóran markað fyrir Ameríkuflug frá höfuðborginni sjálfri heldur líka Dusseldorf. Til síðarnefndu borgarinnar ætlar Icelandair nú að halda í haust.

„Eftir brotthvarf Airberlin af markaðinum milli Þýskalands og Bandaríkjanna sjáum við opnast ný tækifæri fyrir tengiflug Icelandair milli Dusseldorf og 23 áfangastaða okkar í Norður-Ameríku. Dusseldorf er miðpunktur mjög fjölmenns svæðis í Þýskalandi og auk tengimöguleikanna á Keflavíkurflugvelli sjáum við tækifæri til sóknar á Þýskalandsmarkaði fyrir íslenska ferðaþjónustu“, segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, í tilkynningu. Jómfrúarferð flugfélagsins verður farin í haust en þess má geta að yfir sumarmánuðina bjóða bæði WOW air og Eurowings upp á áætlunarflug milli Íslands og Dusseldorf.

Icelandair mun þó ekki sitja eitt að því að fylla það skarð sem Airberlin skildi eftir sig í Dusseldorf því í haust flyst allt Ameríkuflug Eurowings, dótturfélags Lufthansa, frá nágrannaborginni Köln og yfir til Dusseldorf. Er sá flutningur rakinn beint til brotthvarfs Airberlin og reyna nú forsvarsmenn flugmála í Köln að laða til borgarinnar önnur flugfélög sem tilbúin eru til að fljúga þaðan vestur um haf.

Auk Dusseldorf flýgur Icelandair til  fjögurra annarra borga í Þýskalandi, Frankfurt, Munchen, Hamborgar og Berlínar.