Icelandair snýr aftur til Baltimore

Nú fljúga þotur íslenska flugfélagsins til tveggja flugvalla í nágrenni við höfuðborg Bandaríkjanna.

Frá Baltimore. Mynd: Icelandair

Icelandair hefur nú hafið flug til Baltimore á ný eftir um áratugs hlé, en borgin var hluti að leiðakerfi félagsins um árabil. Með fluginu til Baltimore eykur Icelandair framboð sitt inn á hið fjölmenna Washington/Baltimore svæði, en Icelandair flýgur nú þegar á Dulles flugvöllinn í Washington. Um 70 kílómetrar eru á milli flugvallanna.

Á þessu markaðssvæði búa um 10 milljónir íbúa og höfuðborgin er að sjálfsögðu mikil miðstöð stjórnsýslu og viðskipta í Bandaríkjunum. Þetta er fjórða stórborgarsvæðið sem Icelandair þjónar með flugi á tvo flugvelli. Nú þegar er boðið upp á flug til JFK og Newark flugvallanna í New York, til Heathrow og Gatwick í London og til Charles De Gaulle og Orly flugvallanna í París samkvæmt því sem kemur fram í tilkynningu.

Þotur Icelandair munu fljúga fjórum sinnum í viku til Baltimore fram í miðjan október. WOW air flýgur til borgarinnar allt árið um kring.