Íslensk ferðahandbók um Tenerife

Út er komið ferðarit um einn af uppáhalds áfangastöðum Íslendinga.

Snæfríður Ingadóttir og nýja bókin um Tenerife.

Í þotunum sem fljúga frá Keflavíkurflugvelli eru Íslendingar vanalega í minnihluta en hlutföllin snúast við þegar stefnan er sett á Tenerife. Þá eru íslenskir farþegar í meirihluta enda hefur landinn fjölmennt til spænsku eyjunnar síðustu ár. Og nú geta þeir sem eru á leið til Tenerife fundið innblástur fyrir ferðalagið í nýrri bók sem ber heitið  „Ævintýraeyjan Tenerife, stór ævintýri á lítilli eyju.“

Það er Snæfríður Ingadóttir sem skrifaði bókina en hún ferðast árlega til Kanaríeyja með fjölskyldu sinni og er Tenerife í sérstöku uppáhaldi hjá henni. Í bókinni deilir hún úr reynslubanka sínum og gefur lesendum hugmyndir að ýmsu áhugaverðu sem vert er að skoða og upplifa á Tenerife.

Snæfríður hefur heillast svo af Tenerife að hún verður búsett þar allan næsta vetur með fjölskyldu sinni. Þar ætlar hún m.a. að sýna Íslendingum „hina hliðina“ á Tenerife í samstarfi við Úrval-Útsýn.

Nýja ferðabókin hennar Snæfríðar er fáanleg í Eymundsson og á síðunni lifiderferdalag.is. Hún er líka til sölu hjá Bikes of the bikes, íslensku reiðhjólaleigunni, á Playa de las Américas á Tenerife.