Íslensku flug­fé­lögin komast ekki til Kína og Japan

Fyrir Icelandair og WOW air er leiðin til Austurlanda fjær lokuð þar sem Rússar hafa ennþá ekki vilja veita íslenskum flugrekendum leyfi til að fljúga yfir landið. Það kann að skýra afhverju forsvarsmenn íslensku flugfélaganna horfa nú til Indlands.

Ennþá er bið á því að áætlunarflug til Peking hefjist frá Keflavíkurflugvelli. Mynd: Wu Yi / Unsplash

Í byrjun desember hefst áætl­un­ar­flug WOW air til Nýju-Delí líkt og kynnt var í blaða­manna­fundi félagsins í indversku borg­inni í morgun. Þetta verður í fyrsta skipti sem íslenskt flug­félag býður upp á áætl­un­ar­ferðir til Asíu ef frá er talið flug félagsins til Tel Aviv í Ísrael. Icelandair stefnir einnig á að hefja flug til Indlands næsta haust en áfram er leiðin héðan til Kína, Japan og S‑Kóreu lokuð. Ástæðan er sú að rúss­nesk stjórn­völd hafa ekki ennþá gefið heimild fyrir flugi íslenskra flug­fé­laga yfir þetta víðfeð­masta land heims. En leiðin frá Kefla­vík­ur­flug­velli til fjöl­förn­ustu flug­hafn­anna í Kína, Japan eða S‑Kóreu liggur yfir Rúss­land.

Viðræður milli íslenskra og rúss­neskra stjórn­valda um samning um yfir­flug fóru fram í sumar­byrjun í fyrra og aftur síðast­liðið haust en samkvæmt svari frá utan­rík­is­ráðu­neytinu þá liggur niður­staða af þeim viðræðum enn ekki fyrir. Samkvæmt heim­ildum Túrista er líklegt að viðskipta­bannið, sem er við lýði gagn­vart Rússum, hafi dregið mjög úr áhuga Rússa á að gera samkomulag við Íslend­inga. Það mun líka vera alþekkt í flug­geir­anum að Rússar gera ekki samn­inga við flug­félög um yfir­flug nema þau setji einnig áætl­un­ar­ferðir til Rúss­lands á dagskrá. Jafnvel er gerð krafa um að Rúss­lands­fluginu hafi verið haldið úti um nokkurt skeið áður en grænt ljós er gefið á almennar ferðir í rúss­neskri loft­sögu.

Það kostar líka sitt fyrir flugrek­endur að fljúga yfir Rúss­land og getur gjaldið numið 7 til 10 þúsund krónum á hvern farþega, hvora leið. Það þýðir að rúss­nesk flug­mála­yf­ir­völd fengju hátt í 20 þúsund krónur af fargjaldinu sem rukkað væri fyrir beint flug frá Íslandi til Kína og aftur tilbaka. Reyndar mun ástandið í Kína einnig vera óvenju­legt því þar er erlendum flug­fé­lögum stundum aðeins veittur aðgangur að flug­höfnum landsins á ákveðnum dagspörtum. Og þar sem flug­um­ferðin hefur verið að aukast veru­lega hefur þetta orðið til þess að seinkanir í Kína­flugi evrópskra flug­fé­laga eru oft tölu­verðar.

Eins og staðan er í dag er því Indland skásti kost­urinn í Asíu fyrir íslensku flug­fé­lögin og þangað horfa þau nú en WOW er vissu­lega komið skrefinu lengra enda byrjað að selja flug­miða til Nýju Delí.