Jómfrúarferð United Airlines til Íslands

Nú eru bandarísku flugfélögin orðin tvö á Keflavíkurflugvelli og brátt bætist það þriðja við.

Þota United Airlines við Leifsstöð. Mynd: Isavia

Þeir sem eru á leið til New York geta nú valið úr áætlunarferðum fjögurra flugfélaga því í gær hófst Íslandsflug bandaríska flugfélagsins United Airlines hingað til lands. Félagið flýgur hingað frá Newark flugvelli en þangað fljúga líka Icelandair og WOW air. Íslensku flugfélögin eru líka með ferðir til JFK flugvallar og þaðan flýgur Delta Air Lines líka til Íslands. Úrvalið er því mikið eins og sjá má.

„Það er okkur ánægja að hefja árstíðabundið áætlunarflug á milli Keflavíkur og heimahafnar okkar í New York/Newark,” sagði Bob Schumacher, framkvæmdastjóri sölusviðs United í Bretlandi, Írlandi og á Íslandi. „Þetta nýja flug eflir alþjóðlegt leiðakerfi okkar og eykur valfrelsi íslenskra neytenda þar sem boðið er upp á hátt í 70 bein tengiflug frá New York/Newark til áfangastaða í Bandaríkjunum, Kanada, Mexíkó, Karíbahafi og Mið-Ameríku.

„Okkur er það mikil ánægja að bjóða United Airlines velkomið í sístækkandi hóp úrvalsflugfélaga sem fljúga frá Keflavíkurflugvelli. Við sjáum fram á langt og farsælt samstarf,“ sagði Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Isavia á Keflavíkurflugvelli. „United á hátt í 90 ára flugsögu að baki og við hlökkum til að starfa með þeim að því að tryggja að ferðalag viðskiptavina okkar sé fyrsta flokks.“