Kansas City tengist loks Evrópu

Nú geta íbúar bandarísku borgarinnar Kansas City flogið beint úr heimabyggð til Evrópu en það hefur ekki verið möguleiki hingað til.

Myndin var tekin á Keflavíkurflugvelli skömmu fyrir flugtak þegar Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair og áhöfnin á fyrsta fluginu stilltu sér upp framan við Heklu Auroru, Boeing 757 vél Icelandair. Mynd: Icelandair

Flugvöllurinn i Kansas City er sá stærsti í Bandaríkjunum þar sem ekkert beint flug til Evrópu er í boði. Með nágrannaborgum er íbúafjöldi svæðisins um 5 milljónir en þrátt fyrir fjölmennið þá hafa flugsamgöngurnar til og frá borginni nærri eingöngu takmarkast við innanlandsflug.

Á því verður nú breyting því í seinnipartinn í dag fór Icelandair jómfrúarferð sína til Kansas City. Borgin er staðsett í miðjum Bandaríkjunum á mörkum fylkjanna Kansas og Missouri á sléttunum miklu. Saga hennar tengist gjarnan villta vestrinu og amerískri menningu. Hún var heimabær útlagans Jessie James, þar teiknaði Walt Disney fyrst Mikka mús á námsárum sínum og Count Basie kynnti „swing“ tónlist fyrst á fjölmörgum jassklúbbum borgarinnar. Í dag er borgin um margt dæmigerð amerísk stórborg sem býður upp á fjölbreytt menningar- og viðskiptalíf, vetingastaði og aðra afþreyingu.

Fyrsta flugi Icelandair til Kansas City frá var fagnað við brottför á Keflavíkurflugvelli nú síðdegis. Kansas City er ein fimm nýrra borga í Norður-Ameríku sem Icelandair bætir við leiðakerfi sitt nú í vor, en hinar eru Baltimore, Cleveland, Dallas og San Francisco. Alls flýgur Icelandair til 23 borga í Norður-Ameríku í ár.