Meðalfargjaldið hríðlækkaði

Það kostaði mun minna að fljúga með hinu norska Norwegian í apríl en á sama tíma í fyrra. Það er ekki ólíklegt að þróunin hafi verið sambærileg hjá íslensku flugfélögunum enda eiga þau mikilli samkeppni við norska flugfélagið.

norwegian 3
Myndir: Norwegian

Það hefur sjaldan eða aldrei verið eins ódýrt að fljúga milli Evrópu og N-Ameríku og ein helsta skýringin á því er hið stóraukna Atlantshafsflug norska lággjaldaflugfélagsins Norwegian. Vissulega hefur WOW air einnig haft þar sitt að segja og nýverið hóf svo Primera Air, sem er í eigu Andra Más Ingólfssonar, að fljúga milli heimsálfanna tveggja og markaðssetur sig sem lággjaldaflugfélag. Um áratuga skeið hefur svo Icelandair gert út á ódýrari farmiða yfir hafið og er flugfélagið því reglulega sett í flokk lággjaldafélaga í ferðapressunni vestanhafs.

Þessi íslensku og skandinavísku flugfélög eiga svo í samkeppni við fjölda annarra í fólksflutningum yfir hafið og það setur pressu á fargjöldin. Þá stöðu nýta sér margir líkt og sést á fjölgun farþega og tölum um sætanýtingu en þær hafa verið mjög háar síðustu misseri. Og það virðist lítið lát ætla að verða á verðlækkununum því samkvæmt uppgjöri Norwegian fyrir nýliðinn apríl þá lækkuðu fargjöld félagsins um 16% frá sama tíma í fyrra. Þetta umtalsverð breyting á milli ára þó páskarnir hafi þarna einhver áhrif. Þeir voru nefnilega um miðjan apríl í fyrra en yfir mánaðarmótin mars og apríl í ár.

Hvort meðalfargjöldin hjá Icelandair og WOW air hafi þróast á sambærilegan hátt fáum við sennilega ekki að vita þegar félögin senda út sínar tölur fyrir apríl.  Forsvarsmenn íslensku flugfélaganna birta nefnilega ekki eins ítarlegar upplýsingar um þróun fargjalda milli mánaða og tíðkast hjá skandinavísku flugfélögunum. Hitt er þó vitað að eldsneytisreikningur flugfélaganna hefur hækkað verulega því í dag er olíuverðið hærra en það hefur verið í nærri fjögur ár. Ennþá er það þó ekki farið að skila sér út í farmiðaverðið hvað svo sem gerist síðar meir.