Nú beint flug til heimaborgar Budweiser

Áætlunarflug WOW air til St. Louis er hafið. Þekktasti bjórframleiðandi Bandaríkjanna rekur uppruna sinn til borgarinnar.

Helsta kennileiti St. Louis er The Gateway Arch. Mynd: WOW air

Nítjánda fjölmennasta borg Bandaríkjanna bættist við leiðakerfi WOW air í gær en þá fór félagið sína fyrstu ferð til St. Louis í Missouri fylki. Hér eftir verður flogið fjórum sinnum í viku, á mánudögum, þriðjudögum, fimmtudögum og laugardögum í Airbus A321 vél flugfélagsins. Flugtíminn er rétt rúmar sjö klukkustundir en lent er í St Louis klukkan 19:50 að staðartíma.

„Við höfum fundið fyrir miklum áhuga fyrir þessari flugleið frá almenningi í St. Louis. Við erum vel í stakk búin að taka á móti gestum víðs vegar að til þess að upplífa allt sem borgin hefur upp á að bjóða,“ segir Rhonda Hamm-Niebruegge, framkvæmdastjóri St. Louis Lambert International flugvallar, í tilkynningu.

St. Louis tilheyrir Missouri og liggur meðfram Mississippi ánni. Borgin var stofnuð af Frökkum árið 1764 og heldur fast í sínar frönsku rætur en þær má greina í arkitektúr og öðrum þáttum borgarlífsins. Fyrir unnendur klassískra kvikmynda má nefna að rómantíska söngvamyndin „Meet me in St. Louis“ frá 1944, með Judy Garland í aðalhlutverki, gerist þar. Borgin er líka þekkt sem heimaborg Budweiser bjórsins en bruggun á honum hófst í St. Louis fyrir 142 árum síðan.

St. Louis er tólfti áfangastaður WOW air í Bandaríkjunum en þeir verða samtals 13 í lok maí. Stutt er síðan áfangastaðirnir Detroit, Cleveland og Cincinnati bættust við leiðarkerfi WOW air.