Ofmatið á Airbnb

Í nýlegri ferðaþjónustuskýrslu Íslandsbanka voru gistinætur á vegum Airbnb sagðar 3,2 milljónir í fyrra. Hagstofan telur töluna vera 40% lægri. Sérfræðingur bankans segir fagna því, ef rétt reynist, að fram eru komin nákvæmari gögn.

Starfsfólkið á aðalskrifstofu Airbnb veit upp á hár hversu mikil umsvif fyrirtækisins eru hér á landi en það vita íslensk stjórnvöld, bankar eða hagsmunaaðilar ekki. Mynd: Airbnb

Fyrir fimm vikum síðan kom út ferðaþjónustuskýrsla Íslandsbanka og í henni var töluvert fjallað um stóraukin umsvif Airbnb hér á landi. Þar sagði meðal annars að bandaríska fyrirtækið væri með rúmlega fjórðungshlutdeild á íslenska gistiþjónustumarkaðinum og væri sú tegund gistingar sem hefði vaxið langhraðast. Jafnframt var fullyrt að Airbnb gæti farið fram úr hótelunum í ár í fjölda gistinátta talið. Í skýrslunni sagði jafnframt að velta fyrirtækisins á íslenska markaðnum væri upp á 20 milljarða og því var haldið fram að Airbnb tæki til sín rúmlega ársframboð nýbygginga.

Í skýrslu Íslandsbanka var jafnframt fullyrt að í ljósi mikilla umsvifa Airbnb þá væri dvalarlengd ferðamanna ekki að styttast eins og haldið hefur verið fram. „Frekar bendir tölfræðin til þess að ástæðan fyrir færri gistinóttum á hvern ferðamann sé að mestu leyti rakin til aukinnar ásóknar erlendra ferðamanna sem hingað ferðast í óskráða gistingu. Slík gisting fer að mestu leyti fram í gegnum óskráða gistingu á borð við Airbnb,“ stendur í skýrslu bankans.

Mikill munur á Mælaborðinu og Hagstofunni

Grunnurinn að þessu mati sérfræðinga Íslandsbanka eru þær tölur sem finna má um Airbnb á Mælaborði ferðaþjónustunnar en samkvæmt þeim voru gistinætur fyrirtækisins, á Íslandi í fyrra, um 3,2 milljónir. Gögnin á Mælaborðinu eru fengnar frá greiningarfyrirtækinu Airdna sem bankar og stofnanir hér á landi hafa keypt upplýsingar frá síðustu ár. Talsmenn Airbnb hafa hins vegar sagt Airdna ofmeta stærð fyrirtækisins og miðað við nýtt mat Hagstofunnar þá kann það að vera raunin.  Greining Hagstofunnar var birt hálfum mánuði eftir að skýrsla Íslandsbanka kom út og þar segir að gistinætur sem bókaðar hafi verið í gegnum Airbnb og önnur álíka fyrirtæki hafi verið 1,9 milljónir í fyrra. Það er 40 prósent undir þeim tölum sem unnið var út frá í skýrslu Íslandsbanka. Mat Hagstofunnar byggir á virðisaukaskattsskilum Airbnb hér á landi en bandaríska fyrirtækinu ber að skila skatti af þeirri þóknun sem fyrirtækið tekur fyrir að miðla íslenskum gistikostum.

Veita litlar upplýsingar

Ástæðan fyrir því að aðilar hér á landi þurfa að leggja eigið mat á umfang Airbnb er sú að fyrirtækið sjálft veitir ákaflega litlar upplýsingar rekstur sinn. Þær tölur sem Túristi hefur fengið frá Airbnb gefa þó til kynna að mat Hagstofunnar séu mjög nærri lagi. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu voru gestir þess 770 þúsund talsins hér á landi í fyrra en það fæst ekki svar við spurningunni um hversu margar gistinæturnar voru. Í fyrra sagði Túristi hins vegar frá því að meðaldvalartími gesta Airbnb á Íslandi væru 2,5 nætur og ef lengdin hefur verið sú sama í fyrra þá þýðir það að gistinætur Airbnb hafi verið rúmlega 1,9 milljón á síðasta ári. Það er nærri sama tala og Hagstofan reiknaði út en hún nær reyndar líka yfir aðrar bókunarsíður sem sérhæfa sig í heimagistingu.

Jákvætt fyrir greiningaraðila og hagsmunaaðila

Munurinn á þessum tveimur síðarnefndu útreikningum er því nánast enginn en sem fyrr segir er talan sem Íslandsbanki vann út frá 40% hærri. Og miðað við lægri töluna þá er hlutdeild Airbnb á gistimarkaðnum nokkru lægri en Íslandsbanki gat sér til um og þar með á bandaríska gistimiðlunin langt í land með að fara fram úr hótelunum líkt og talað var um bankaskýrslunni. Aðspurður um hvort ástæða sé til að setja fyrirvara við þessar ályktanir, núna þegar aðrar upplýsingar eru komnar fram, segir Elvar Orri Hreinsson, einn af höfundum Íslandsbankaskýrslunnar, að þetta atriði og einnig sú staðreynd að ferðamönnum sé að fjölga hægar en vonir stóðu til um dragi úr líkunum á því að ályktunin um að Airbnb fari fram úr hótelunum muni standast. „Ég fagna því aftur á móti að komin séu, ef rétt reynist, nákvæmari gögn um þennan markað og er það afskaplega jákvætt fyrir okkur greiningaraðila og aðra hagsmunaaðila,“ segir Elvar.

Þess ber að geta að Túristi hefur í greiningum sínum síðustu ár líka nýtt sér gögn sem byggja á tölum frá Airdna. Í ljósi nýfenginna upplýsinga, sem sagt er frá hér að ofan, þá má efast um að sumar þeirra standist. En sem fyrr segir þá fæst aldrei almennileg sýn á raunverulega stærð Airbnb á íslenska markaðnum fyrr en fyrirtækið sjálft veitir aðgang að göngum sínum. Þá annað hvort af frumkvæði fyrirtækisins sjálfs eða vegna kröfu stjórnvalda.