Óljóst með Lundúnarflugið til Íslands

Það er ennþá ekki komið á hreint hvort það verða fimm eða sex flugfélög sem fljúga munu milli Íslands og bresku höfuðborgarinnar næsta vetur.

Mynd: Norwegian

Núna er hægt að bóka flug næsta vetur með Norwegian frá Keflavíkurflugvelli til Alicante, Barcelona, Madrídar, Óslóar og Stokkhólms. Hins vegar eru engar ferðir til London á boðstólum en síðustu tvö vetur hafa þotur Norwegian flogið þrisvar sinnum í viku hingað frá Gatwick flugvelli. Samkvæmt upplýsingum frá Norwegian þá liggur endanlega vetraráætlun flugfélagsins ekki fyrir og því er ekki hægt að setja að svo stöddu hvort Íslandfluginu frá höfuðborg Bretlands verði haldið áfram eða ekki.

London er sú borg sem langoftast er flogið til frá Keflavíkurflugvelli og voru ferðirnar samtals 81 í viku þegar mest lét í vetur en umferðin er minni yfir sumarmánuðina. Sem fyrr segir var Norwegian aðeins með þrjár af öllum þessum ferðum og hlutdeild félagsins því lítil. Og þó norska flugfélagið taki ekki upp þráðinn í haust þá stefnir í að framboðið aukist á milli ára því nú flýgur hið ungverska Wizz Air hingað fjórum sinnum í viku frá Luton flugvelli sem er ekki langt frá London. Wizz Air bætir svo í næsta vetur og því þá munu þotur félagsins fljúga hingað daglega frá Luton.

Auk Wizz air þá bjóða bresku flugfélögin British Airways og easyJet upp á áætlunarflug hingað frá London og auðvitað Icelandair og WOW air einnig. Ef Norwegian heldur sínum striki verða flugfélögin sex talsins sem keppa um farþegana sem eru á leið milli Íslands og bresku höfuðborgarinnar.