Sala á Indlandsfluginu er hafin

Núna stendur yfir blaðamannafundur WOW air í Nýju Delí og á heimasíðu flugfélagsins má finna flugmiða til indversku borgarinnar.

wow gma Friðrik Örn Hjaltested

Í byrjun desember hefst áætlunarflug WOW air til Nýju Delí í Indlandi og verða í boði þrjár ferðir í viku. Eftir áramót fjölgar ferðunum í fimm samkvæmt því sem sjá má í bókunarvél flugfélagsins. Þar kemur fram að þoturnar munu fljúga frá Keflavíkurflugvelli klukkan um hádegisbil og lenda á Indira Gandhi flugvellinum í Nýju Delí klukkan þrjú um nótt. Flugið tekur 10 tíma en heimferðin er nærri tveimur tímum lengri. Þá verður flogið frá Indlandi klukkan sjö að morgni og lent á Keflavíkurflugvelli til 13:20. Þannig gefst skiptifarþegum tími til að færa sig yfir í þoturnar sem halda til Bandaríkjanna seinnipartinn.

Ódýrustu farmiðarnir, báðar leið, kosta 70.997 krónur en 91.991 fyrir þá sem bóka WOW plus fargjald með farangri og sætavali.

Viðbót:

Samkvæmt fréttatilkynningu frá WOW air verður fyrsta ferðin til Nýju Delí farin þann 6. desember. „Aldrei fyrr hefur verið boðið upp á beint áætlunarflug til Indlands frá Íslandi og það er gaman að geta átt þátt í því að marka tímamót í íslenskri flugsögu. Indland er land mikillar sögu og menningar og það fá farþegar okkar að upplifa á frábærum verðum, í glænýjum flugvélum,“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air.