Segir kaup Tripadvisor á Bókun vera óheppilega þróun

Innan ferðaþjónustunnar munu ófáir vera uggandi yfir því að viðskiptasaga fyrirtækja þeirra sé nú komin í hendur bandarísku ferðasíðunnar að einhverju eða öllu leyti. Ferðamálastjóri deilir þeim áhyggjum.

Island seljalandsfoss taylor leopold
Mynd: Taylor Leopold / Unsplash

Tilkynnt var um kaup Tripadvisor á íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Bókun í lok síðasta mánaðar. En það síðarnefnda rekur samnefnt sölu- og birgðakerfi og hefur það náð mikilli útbreiðslu hér á landi. Þannig mun stór hluti þeirra íslensku ferðaþjónustufyrirtækja, sem selja afþreyingu til ferðamanna, vera í viðskiptum við Bókun. Í kerfinu eru ekki aðeins að finna upplýsingar um allar bókanir og söluverð síðustu ára heldur líka gögn um hvernig salan fór fram, hverjir pöntuðu og ýmislegt fleira.

Að þessar ítarlegu upplýsingar séu nú komnar til Tripadvisor veldur óróa hjá viðmælendum Túrista innan ferðþjónustunnar. Jafnvel þó gögnin kunni í raun að vera eign fyrirtækjanna sjálfra. Aðspurður um þessar áhyggjur segir Hjalti Baldursson, framkvæmdastjóri Bókunar, að hann megi ekki tjá sig þessi mál og vísar þess í stað á upplýsingafulltrúa Tripadvisor. Túrista hafa þó ekki borist nein svör frá bandaríska fyrirtækinu frá því að eftir þeim var óskað fyrir viku síðan.

Ekki með hagsmuni íslenskra fyrirtækja að leiðarljósi

Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri, telur hins vegar ljóst að gögnin sem finna má í kerfum Bókunar séu viðkvæm. „Þetta er óheppileg þróun. Hagsmunir ferðaþjónustunnar á Íslandi er að minnka umfang erlendra bókunarsíðna en nú er ein af þeim stærstu að kaupa bókunarkerfið sem er nánast alls ráðandi hér á landi. Hjá Bókun liggja mjög viðkvæmar upplýsingar um sölu allra þessara fyrirtækja og Tripadvisor getur hagnýtt sér þær og það verður ekki með hagsmuni innlendra ferðaþjónustfyrirtækja að leiðarljósi,” segir Skarphéðinn.

Eftirlitinu hafa borist ábendingar

Því fer fjarri að með kaupunum á Bókun sé Tripadvisor að hefja starfsemi hér á landi. Bandaríska fyrirtækið eru nú þegar umsvifamikið á íslenska markaðnum og til að mynda hefur það á boðstólum rúmlega sjö hundruð mismunandi skoðunarferðir og afþreyingarmöguleika fyrir ferðafólk hér á landi. Tripadvisor þiggur þóknun frá íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum fyrir söluna en hún fer aðallega fram í gegnum dótturfélag þess sem kallast Viator. Þrátt fyrir þessi miklu umsvif þá segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, að ekki sé hægt að slá því föstu hvort samruni Tripadvisor og Bókunar sé tilkynningarskyldur hér á landi. „Hins vegar hafa eftirlitinu borist ábendingar er varða kaupin,” bætir Páll Gunnar við.