Skiptifarþegum fjölgar langmest

Á fyrsta þriðjungi ársins fjölgaði farþegum á Keflavíkurflugvelli um nærri 12% en það eru skiptifarþegarnir sem vega þyngst í þessari viðbót. Þeir farþegar eru taldir tvisvar sinnum á útleið og aftur þegar þeir halda heim.

kef farthegar
Hópur skiptifarþega stækkar hraðast á Keflavíkurflugvelli. Mynd: Isavia

Farþegunum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar er skipt í þrjá mismunandi hópa; brottfararfarþega, komufarþega og skiptifarþega. Íslendingur sem fer í helgarferð til útlanda er t.d. talinn sem brottfararfarþegi á leiðinni út en komufarþega þegar hann snýr heim á ný. Þessi einstaklingur kemur því tvisvar sinnum fyrir í talningunni. Skiptifarþegarnir eru svo þeir sem millilenda á Keflavíkurflugvelli á leið yfir Atlantshafið og þeir eru taldir tvisvar sinnum á hvorri leið. Það þýðir að Þjóðverji sem flýgur hingað frá Berlín og heldur samdægurs áfram til Boston er talinn tvisvar á leiðinni til Bandaríkjanna og aftur tvisvar þegar hann heldur til Þýskalands. Hann er því talinn fjórum sinnum en það er ekki sjálfsagt að fólk fari alltaf sömu leiðina tilbaka. Þessi aðferð sem almennt er notuð við talningu á farþegum á alþjóðlegum flugvöllum.

Hvað sem aðferðarfræðinni líður þá er ljóst að vægi brottfarar- og komufarþega hefur dregist saman á Keflavíkurflugvelli. Samanlagt vægi þessara hópa var nefnilega 71% fyrstu fjóra mánuðina í fyrra en núna er hlutfallið komið niður í 67%. Ástæðan er sú að fjölgunin í þessum hópum var rétt rúm 5% á tímabilinu á meðan skiptifarþegahópurinn stækkaði um 27% á fyrsta þriðjungi ársins.

Í heildina fóru rúmlega 2,4 milljónir farþegar um Keflavíkurflugvöll fyrstu fjóra mánuði ársins og fjölgaði þeim um 254 þúsund frá sama tíma í fyrra.