Sólarlandaferðir seljast ekki í Skandinavíu

Á meðan utanlandsferðir rokseljast á Íslandi þá kvarta ferðafrömuðir á hinum Norðurlöndunum yfir slæmri sölu jafnvel þó verðið hafi lækkað umtalsvert. Það er veðurfarið sem hefur svona mikið að segja um eftirspurnina.

Miðjarðarhafið freistar ekki Svía þessa dagana sem kjósa heldur að synda í sænskum sjó. Mynd: Henrik Trygg/Visit Stockholm

Veðrið hefur leikið við íbúa á meginlandi Evrópu síðustu vikur og í nágrannalöndunum hefur hitinn ekki farið undir 20 gráður síðastliðinn hálfan mánuð. En á meðan frændþjóðirnar eru fyrir löngu komnar í sumarfötin er fólk hér á landi ennþá að kappklætt. Og þetta óvenju slæma vorveður hefur ýtt rækilega undir sölu á sólarlandaferðum frá Íslandi eins og kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. Þar var haft eftir Þórunni Reynisdóttur, forstjóra Ferðaskrifstofu Íslands, að sífellt fleiri kjósi hreinlega að flýja land þegar veðrið er svona slæmt. „Maí er búinn að vera sérstaklega góður og veturinn líka. Ef veðrið heldur áfram að vera svona slæmt eiginlega bara allan ársins hring eigum við góðan möguleika á að vera þokkalega stór í sólarlandaferðum í ár,“ segir Þórunn. Undir þetta tók Tómas J. Gestsson, forstjóri Heimsferða.

Staðan á hinum Norðurlöndunum er þveröfug. Þar seljast nefnilega ekki sólarlandaferðir og skrifast það á bongóblíðuna sem hefur verið alls ráðandi síðustu tvær vikurnar. Muna heimamenn varla eftir öðrum eins hita á þessum tíma árs. Alla vega ekki svona marga daga í röð og langtímaspáin gerir ráð fyrir óbreyttu ástandi. Af þessum sökum bjóðast í dag óvenju ódýrar sólarlandaferðir frá Skandinavíu og í sænsku pressunni er talað um að ferðirnar suður á bóginn seljist nú víða með helmings afslætti. Ódýrasta sólarlandaferðirnar sem Túristi hefur fundið frá Stokkhólmi og Kaupmannahöfn, í þessari viku, kosta rétt um 13 þúsund íslenskar krónur og innifalið er flug og gisting í eina viku við gríska sandströnd.

TENGDAR GREINAR: 72 tíma útsala á hótelgistingu