Steikt síld í sænskum matartrukk

Matarlyktin á götum úti eykst verulega á sumrin því þá er aðal vertíðin hjá veitingafólkinu sem selur skyndibita út um lúgu. Einn af vertunum í Gautaborg er óhræddur við að bjóða upp á klassískan sænskan sjávarrétt.

Steikta síldin hjá Strömmingsluckan er vinsæll skyndibiti í Gautaborg. Myndir: Superstudio D&D/Göteborg & Co og Túristi

Það þykir fátt meira móðins í borgarskipulagi dagsins í dag en matartrukkar sem standa við torg og stræti. Alla vega er þetta að verða sífellt algengari sjón yfir sumarmánuðina í borgunum í löndunum í kringum okkur. Það verður þó að segjast eins og er að úrvalið í þessum trukkum oft einhæft enda fókusa margir á hamborgara og hægeldað rifið kjöt. Svo er réttir kenndir við Asíu og Mexíkó líka algengir en fáir virðast leita inn á við og bjóða upp á mat beint úr héraði.

Það gera hins vegar aðstandendur eins vinsælasta matartrukksins í Gautaborg. Sá kallast Strömmingsluckan og réttur hússins er steikt síld með kartöflustoppu og lingonsultu. Sænskara verður það varla og Túristi getur vottað að þessi réttur er peninganna virði. Síldin er ljómandi og ekkert gervibragð af stöppunni enda mun hún vera heimagerð. Skammturinn kostar 74 sænskar (um 880 kr.) og dugar hann vel sem hádegismatur en það er nú pláss fyrir eins og einn ís í eftirrétt.

Strömmingsluckan er með vagninn sinn á torgi við Magasingatan 17 sem er á besta stað í miðborginni og. þarna eru líka nokkrir aðrir veitingavagnar. Það má einnig mæla með kaffinu hjá Da Matteo sem er með eitt af sínum útibúum við torgið. 

Icelandair flýgur til Gautaborgar yfir sumarmánuðina en þessi önnur fjölmennasta borg Svíþjóðar liggur vel við höggi fyrir þá sem vilja kynna sér vesturströnd Svíþjóðar. Skerjagarðurinn hefur að geyma ófáar sjarmerandi eyjar og í borginni sjálfri er hinn þekkti Liseberg skemmtigarður.