Stóru hótelkeðjurnar auka umsvifin við Laugaveg

Tvö af hótelunum við verslunargötuna eru nú komin undir stærstu hótelfyrirtæki landsins.

Frá Sandhótel sem verður hluti af KEA hótelum þann 1. ágúst. Mynd: Sandhótel

Sandhótel við Laugaveg 36 verður frá og með 1. ágúst nk. hluti af Keahótelunum en leigusamningur þess efnis hefur verið undirritaður. Þessi 67 herbergja gististaður var opnaður síðastliðið sumar og þegar lokaáfanga hótelsins líkur á næsta ári verða herbergin 77 talsins. Keahótelin eru ein af stærstu hótelkeðjum landsins og verður Sandhótel tíundi gististaðurinn sem rekinn er undir merkjum fyrirtækisins. Fyrir eru sex hótel í Reykjavík, tvö á Akureyri og eitt við Mývatn.

Sandhótel er annað hótelið við Laugaveg sem verður hluti af hótelkeðju á aðeins hálfum mánuði því um miðjan apríl tilkynntu Icelandair hótelin um kaup á Hótel Öldu. Það hótel er við Laugaveg 66 og tók til starfa vorið 2014. Þar eru herbergin 89 talsins en eftir kaupin á Hótel Öldu mun herbergjafjöldi Icelandair hótela alls telja 1.937 herbergi um land allt. Þarf af eru 876 í Reykjavík og 450 herbergi á landsbyggðinni. Við úrvalið bætast svo 611 Eddu hótelherbergi yfir sumarmánuðina.