Sýndarleiðsögumaður í snjallsíma

Fyrstu verðlaun í nýsköpunarsamkeppni nemenda í Háskólanum í Reykjavík voru á sviði ferðaþjónustu

GoARGuide teymið. Mynd: Háskólinn í Reykjavík

Í lok fyrsta árs fara nemar í Háskólanum í Reykjavík í gegnum þriggja vikna áfanga þar sem lögð er áhersla á á nýsköpun og stofnun fyrirtækja. Nemendunum er skipt í hópa sem síðan eiga að koma fram með og útfæra nýsköpunarhugmynd, búa til viðskiptalíkan og frumgerð nýrrar vöru. Í ár var unnið eftir svokölluð Sprint kerfi sem hannað var hjá Google.

Fyrstu verðlaun hlaut snjallsímalausn (GoARGuide) fyrir ferðamenn sem felur í sér sýndarleiðsögumann í gegnum viðbótarveruleika, þannig að ferðamenn geta gengið um borgir og ferðamannastaði og fengið sérsniðna leiðsögn og upplýsingar í snjallsímann sinn. Vinningstillagan fékk 500 þúsund króna verðlaunafé og mun taka þátt í frumkvöðlakeppnina Venture Cup í Kaupmannahöfn í haust samkvæmt því sem kemur fram í tilkynningu.