Túristi vill betri upplýs­ingar

Beiðnum um greinargóðar upplýsingar um farþegaflug til og frá landinu hefur sífellt verið hafnað af Isavia. Málinu hefur því verið skotið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Útgef­andi Túrista hefur sent kæru á hendur Isavia ohf. til úrskurð­ar­nefndar upplýs­inga­mála sökum þess hve erfið­lega gengur að fá upplýs­ingar frá fyrir­tækinu. Upplýs­ingar sem flug­mála­yf­ir­völd víða um heim veita fúslega í einni eða annarri mynd.

Mála­vextir eru raktir í kærunni sem er hér að neðan:

Allt frá árinu 2011 hefur Túristi gert daglegar taln­ingar á flug­ferðum til og frá Kefla­vík­ur­flug­velli. Um hver mánað­armót birtast svo fréttir á miðl­inum, byggðar á þessum upplýs­ingum, þar sem fram kemur hvert vægi hvers flug­fé­lags er í brott­förum talið. Upplýs­ingar um fjölda ferða til ákveð­inna áfanga­staða birtast líka reglu­lega í grein­unum.

Þessar saman­tektir Túrista eru líklega einu opin­beru gögnin sem til eru um flug­um­ferð til og frá landinu þar sem hvorki Isavia ohf. né Samgöngu­stofa birta sambæri­legar upplýs­ingar. Isavia birtir hins vegar mánað­ar­lega upplýs­ingar um heild­ar­fjölda farþega á Kefla­vík­ur­flug­velli.

Víða um heim veita flug­mála­yf­ir­völd hins vegar grein­ar­góðar upplýs­ingar um flug­um­ferð í sínum löndum. Þannig hef ég endur­tekið sótt upplýs­ingar frá banda­rískum flug­mála­yf­ir­völdum um fjölda sæta og fjölda farþega á hverri einustu flug­leið, brotið niður á tímabil og flug­félög sem fljúga til og frá viðkom­andi áfanga­stað. Með þessum hætti má t.d. nálgast nákvæmar upplýs­ingar um sætaframboð og ‑nýtingu í áætl­un­ar­flugi milli Íslands og Banda­ríkj­anna

Þessar upplýs­ingar er með öðrum orðum hægt að fá sund­urlið­aðar eftir flug­fé­lögum, áfanga­stöðum og mánuðum. Þannig er t.d. hægt að sjá hversu margir nýttu sér ferðir Icelandair til Seattle í ákveðnum mánuði og hversu mörg auð sæti voru í umræddum ferðum. Sömu upplýs­ingar er hægt að fá um ferðir WOW air til San Franscisco o.s.frv. Einu takmark­an­irnar á þessari upplýs­inga­gjöf banda­rískra yfir­valda eru þær að tölurnar eru fyrst gerðar opin­berar þegar þær eru orðnar sex mánaða gamlar.

Hinu megin Atlants­hafsins birta bresk flug­mála­yf­ir­völd mánað­arleg uppgjör á heima­síðu sinni þar sem fram kemur hversu margir flugu milli Íslands og breskra flug­valla. Farþega­fjöldinn er enn fremur flokk­aður niður eftir áætl­unar- og leiguflugi.

Til enn frekari saman­burðar birta dönsk flug­mála­yf­ir­völd upplýs­ingar um fjölda farþega eftir flug­leiðum og ef litið er til Kastrup flug­vallar í Kaup­manna­höfn þá eru birt gögn sem sýna fjölda farþega á 10 fjöl­menn­ustu flug­leið­unum og fjölda farþega hjá 20 stærstu flug­fé­lög­unum.

Eins og fram­an­greint leiðir í ljós þá er upplýs­inga­gjöfin ekki sú sama hjá þessum þremur þjóðum, en í öllum tilfellum þykir sjálfsagt að birta ákveðnar upplýs­ingar. Slíkar upplýs­ingar varða almenning og hefur vefritið Túristi byggt fjöl­margar greinar á þessum tilteknu upplýs­ingum. Þær greinar hafa vakið athygli og umræðu í þjóð­fé­laginu, enda eru flug­um­ferð og ferða­þjón­usta lykil­at­vinnu­greinar og varðar staða hennar og þróun almenning miklu.

Verði þessar upplýs­ingar gerðar opin­berar, líkt og tíðkast í fjöl­mörgum löndum, fæst betri mynd af því hvernig farþegar sem fljúga til og frá landinu skiptast á milli flug­leiða og flug­fé­laga. Þá er enn fremur hægt að greina skipt­ingu milli innlendra og erlendra flug­fé­laga. Slíkar upplýs­ingar geta ásamt því að vera frétt­næmar fyrir almenning varðað rekstr­ar­aðila í ferða­þjón­ustu miklu auk þess sem þær eru grund­völlur rann­sókna á þróun og stöðu íslenskrar ferða­þjón­ustu og flugrekstrar.

Ég hef ítrekað óskað eftir því Isavia ohf. að aðgangur verði veittur að sambæri­legum upplýs­ingum um flug­um­ferð um Kefla­vík­ur­flug­völl, en þeirri beiðni hefur endur­tekið verið synjað. Er mér því nauð­ugur sá kostur að skjóta afstöðu Isavia ohf. til úrskurð­ar­nefndar um upplýs­ingamál.

Rökstuðn­ingur:

Eins og áður er rakið hefur Isavia ohf. endur tekið hafnað beiðni um að veita umræddar upplýs­ingar. Sú synjun hefur ekki verið ítar­lega rökstudd, heldur eingöngu vísað til þess að um viðskipta­upp­lýs­ingar sé að ræða.

Verður að ganga út frá því að Isavia ohf. sé þar að byggja afstöðu sína á 2. málslið 1. mgr. 9.gr. upplýs­ingalaga sem heim­ilar takmörkun á upplýs­inga­rétti er varðar mikil­væga fjár­hags- eða viðskipta­hags­muni fyrir­tækja og annarra lögaðila. Því er ekki borið við að umrædd gögn séu ekki til, eða að þeirra þurfi að afla sérstak­lega.

Ég tel umrædda afstöðu ganga þvert gegn tilgangi upplýs­ingalaga eins og hann er útlistaður í lögunum sjálfum. Í frum­varpi til upplýs­ingalaga segir um 9. gr., þ.e. viðskipta­hags­muni:

„Þannig er óheimilt að veita upplýs­ingar um atvinnu‑, fram­leiðslu- og viðskipta­leynd­armál eða viðkvæmar upplýs­ingar um rekstrar- eða samkeppn­is­stöðu svo og aðra mikil­væga viðskipta­hags­muni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hlið­sjón af hags­munum þess lögaðila sem upplýs­ingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hags­muni viðkom­andi lögaðila af því að upplýs­ingum sé haldið leyndum gagn­vart þeim mikil­vægu hags­munum að upplýs­ingar um ráðstöfun opin­berra hags­muna séu aðgengi­legar almenn­ingi.“

Það er óskilj­an­legt að íslensk flug­mála­yf­ir­völd telji að upplýs­ingar sem eru birtar á grein­ar­góðan hátt í öðrum löndum séu sérstakar viðskipta­upp­lýs­ingar sem óheimilt sé að birta almenn­ingi. Skil­merki­legar upplýs­ingar um farþega­fjölda sem ferðast milli landa eru ekki viðskipta­leynd­armál og alls ekki þess eðlis að opin­berum aðila á borð við Isavia ohf. beri að halda þeim frá almenn­ingi. Nægir þar að vísa til þeirrar stöðu sem farþega­flutn­ingar og ferða­þjón­ustu skipar í íslensku hagkerfi, sem og tilgangs upplýs­ingalaga.

Saman­tekt:

Með vísan til alls fram­an­greinds er þess krafist að úrskurðað verði að Isavia ohf. sé skylt að birta upplýs­ingar um framboð á flug­sætum og farþega­fjölda sem fer um Kefla­vík­ur­flug­völl, sund­ur­greint niður á flugrekstr­ar­aðila og tímabil.

Séu slíkar upplýs­ingar ekki tiltækar er til vara þess krafist að Isavia ohf. verði gert skylt að birta eins grein­ar­góðar og niður­brotnar upplýs­ingar og fyrir liggja um flug­um­ferð og farþega­flutn­inga til og frá Kefla­vík­ur­flug­velli.

Í báðum tilfellum að upplýs­ing­arnar nái a.m.k. 5 ár aftur í tímann.

Virð­ing­ar­fyllst,

Kristján Sigur­jónsson, útgef­andi Túrista.