Samfélagsmiðlar

Túristi vill betri upplýsingar

Beiðnum um greinargóðar upplýsingar um farþegaflug til og frá landinu hefur sífellt verið hafnað af Isavia. Málinu hefur því verið skotið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Útgefandi Túrista hefur sent kæru á hendur Isavia ohf. til úrskurðarnefndar upplýsingamála sökum þess hve erfiðlega gengur að fá upplýsingar frá fyrirtækinu. Upplýsingar sem flugmálayfirvöld víða um heim veita fúslega í einni eða annarri mynd.

Málavextir eru raktir í kærunni sem er hér að neðan:

Allt frá árinu 2011 hefur Túristi gert daglegar talningar á flugferðum til og frá Keflavíkurflugvelli. Um hver mánaðarmót birtast svo fréttir á miðlinum, byggðar á þessum upplýsingum, þar sem fram kemur hvert vægi hvers flugfélags er í brottförum talið. Upplýsingar um fjölda ferða til ákveðinna áfangastaða birtast líka reglulega í greinunum.

Þessar samantektir Túrista eru líklega einu opinberu gögnin sem til eru um flugumferð til og frá landinu þar sem hvorki Isavia ohf. né Samgöngustofa birta sambærilegar upplýsingar. Isavia birtir hins vegar mánaðarlega upplýsingar um heildarfjölda farþega á Keflavíkurflugvelli.

Víða um heim veita flugmálayfirvöld hins vegar greinargóðar upplýsingar um flugumferð í sínum löndum. Þannig hef ég endurtekið sótt upplýsingar frá bandarískum flugmálayfirvöldum um fjölda sæta og fjölda farþega á hverri einustu flugleið, brotið niður á tímabil og flugfélög sem fljúga til og frá viðkomandi áfangastað. Með þessum hætti má t.d. nálgast nákvæmar upplýsingar um sætaframboð og -nýtingu í áætlunarflugi milli Íslands og Bandaríkjanna

Þessar upplýsingar er með öðrum orðum hægt að fá sundurliðaðar eftir flugfélögum, áfangastöðum og mánuðum. Þannig er t.d. hægt að sjá hversu margir nýttu sér ferðir Icelandair til Seattle í ákveðnum mánuði og hversu mörg auð sæti voru í umræddum ferðum. Sömu upplýsingar er hægt að fá um ferðir WOW air til San Franscisco o.s.frv. Einu takmarkanirnar á þessari upplýsingagjöf bandarískra yfirvalda eru þær að tölurnar eru fyrst gerðar opinberar þegar þær eru orðnar sex mánaða gamlar.

Hinu megin Atlantshafsins birta bresk flugmálayfirvöld mánaðarleg uppgjör á heimasíðu sinni þar sem fram kemur hversu margir flugu milli Íslands og breskra flugvalla. Farþegafjöldinn er enn fremur flokkaður niður eftir áætlunar- og leiguflugi.

Til enn frekari samanburðar birta dönsk flugmálayfirvöld upplýsingar um fjölda farþega eftir flugleiðum og ef litið er til Kastrup flugvallar í Kaupmannahöfn þá eru birt gögn sem sýna fjölda farþega á 10 fjölmennustu flugleiðunum og fjölda farþega hjá 20 stærstu flugfélögunum.

Eins og framangreint leiðir í ljós þá er upplýsingagjöfin ekki sú sama hjá þessum þremur þjóðum, en í öllum tilfellum þykir sjálfsagt að birta ákveðnar upplýsingar. Slíkar upplýsingar varða almenning og hefur vefritið Túristi byggt fjölmargar greinar á þessum tilteknu upplýsingum. Þær greinar hafa vakið athygli og umræðu í þjóðfélaginu, enda eru flugumferð og ferðaþjónusta lykilatvinnugreinar og varðar staða hennar og þróun almenning miklu.

Verði þessar upplýsingar gerðar opinberar, líkt og tíðkast í fjölmörgum löndum, fæst betri mynd af því hvernig farþegar sem fljúga til og frá landinu skiptast á milli flugleiða og flugfélaga. Þá er enn fremur hægt að greina skiptingu milli innlendra og erlendra flugfélaga. Slíkar upplýsingar geta ásamt því að vera fréttnæmar fyrir almenning varðað rekstraraðila í ferðaþjónustu miklu auk þess sem þær eru grundvöllur rannsókna á þróun og stöðu íslenskrar ferðaþjónustu og flugrekstrar.

Ég hef ítrekað óskað eftir því Isavia ohf. að aðgangur verði veittur að sambærilegum upplýsingum um flugumferð um Keflavíkurflugvöll, en þeirri beiðni hefur endurtekið verið synjað. Er mér því nauðugur sá kostur að skjóta afstöðu Isavia ohf. til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Rökstuðningur:

Eins og áður er rakið hefur Isavia ohf. endur tekið hafnað beiðni um að veita umræddar upplýsingar. Sú synjun hefur ekki verið ítarlega rökstudd, heldur eingöngu vísað til þess að um viðskiptaupplýsingar sé að ræða.

Verður að ganga út frá því að Isavia ohf. sé þar að byggja afstöðu sína á 2. málslið 1. mgr. 9.gr. upplýsingalaga sem heimilar takmörkun á upplýsingarétti er varðar mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Því er ekki borið við að umrædd gögn séu ekki til, eða að þeirra þurfi að afla sérstaklega.

Ég tel umrædda afstöðu ganga þvert gegn tilgangi upplýsingalaga eins og hann er útlistaður í lögunum sjálfum. Í frumvarpi til upplýsingalaga segir um 9. gr., þ.e. viðskiptahagsmuni:

„Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi.“

Það er óskiljanlegt að íslensk flugmálayfirvöld telji að upplýsingar sem eru birtar á greinargóðan hátt í öðrum löndum séu sérstakar viðskiptaupplýsingar sem óheimilt sé að birta almenningi. Skilmerkilegar upplýsingar um farþegafjölda sem ferðast milli landa eru ekki viðskiptaleyndarmál og alls ekki þess eðlis að opinberum aðila á borð við Isavia ohf. beri að halda þeim frá almenningi. Nægir þar að vísa til þeirrar stöðu sem farþegaflutningar og ferðaþjónustu skipar í íslensku hagkerfi, sem og tilgangs upplýsingalaga.

Samantekt:

Með vísan til alls framangreinds er þess krafist að úrskurðað verði að Isavia ohf. sé skylt að birta upplýsingar um framboð á flugsætum og farþegafjölda sem fer um Keflavíkurflugvöll, sundurgreint niður á flugrekstraraðila og tímabil.

Séu slíkar upplýsingar ekki tiltækar er til vara þess krafist að Isavia ohf. verði gert skylt að birta eins greinargóðar og niðurbrotnar upplýsingar og fyrir liggja um flugumferð og farþegaflutninga til og frá Keflavíkurflugvelli.

Í báðum tilfellum að upplýsingarnar nái a.m.k. 5 ár aftur í tímann.

Virðingarfyllst,

Kristján Sigurjónsson, útgefandi Túrista.

Nýtt efni

Frakkar fjölmenna til Íslands allt árið um kring og í fyrra flugu frá Keflavíkurflugvelli 99 þúsund farþegar með franskt vegabréf. Það jafngildir því að fimm af hverjum 100 ferðamönnum hér á landi séu franskir enda eru flugsamgöngur milli Íslands og Parísar tíðar og stefnir í að þeir verði óvenju miklar næsta vetur. Það eru því …

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …