Útlit fyrir færri ferðamenn í sumar

Forsvarsmenn Keflavíkurflugvallar kynntu uppfærða spá yfir fjölda flugfarþega í morgun. Erlendu farþegunum fækkar en skiptifarþegunum fjölgar.

Í sumar má gera ráð fyrir færri erlendum ferðamönnum en í fyrra. Mynd: Guus Baggermans / Unsplash

Það sem af er ári hefur erlendum ferðamönnum ekki fjölgað í takt við það sem spár Isavia gerðu ráð fyrir og það er minna um bókanir á Íslandsferðum í sumar. Þetta kom fram í máli Hlyns Sigurðssonar, framkvæmdastjóra viðskiptasviðs hjá Isavia, á morgunverðarfundi fyrirtækisins nú í morgun. Af þessum sökum hefur Isavia endurskoðað fyrri spá sína og samkvæmt þeirri nýju er gert ráð fyrir að næstu þrjá mánuði muni hópur erlendra ferðamanna á Keflavíkurflugvelli dragast saman og þegar árið er verður gert upp muni fjölgunin í þessum hópi nema 2,6%. Spáin sem Isavia birti í nóvember gerði ráð fyrir 10,9% aukningu. Hlynur ítrekaði hins vegar að þessar tölur gætu breyst hratt og benti hann á að yngra fólk bókaði ferðir sínar með sífellt styttri fyrirvara.

Á sama tíma og erlenda ferðafólkinu fækkar þá mun hlutfall skiptifarþega hækka hraðar en áður voru teikn um. Ástæðan er meðal annars sú að framboð á áætlunarflugi til Norður-Ameríku hefur aukist verulega og sagði Hlynur að Keflavíkurflugvöllur væri í fimmta sæti yfir þær evrópsku flughafnir sem eru með flesta áfangastaði vestanhafs. Í máli Hlyns kom jafnframt fram að Icelandair og WOW air standi undir um 80% af öllum framboði á flugi til og frá Keflavíkurflugvallar. Það er hærra hlutfall en þekkist víðast hvar annars staðar í álfunni. Í heildina er búist við að 41% farþega á Keflavíkurflugvelli verði tengifarþegar.

Hin nýja spá Isavia er óbreytt hvað varðar fjölda íslenskra farþega en ferðagleði landans hefur verið mikil og verður það áfram samkvæmt tölum Isavia.