Verið að leggja lokahönd á ársuppgjör WOW air

Athygli hefur vakið að forsvarsmenn WOW air hafa ekki ennþá birt upplýsingar um afkomu fyrirtækisins í fyrra. Frestur íslenskra flugrekstraraðila til að skila inn ársreikningi til Samgöngustofu rennur út í lok næsta mánaðar.

Mynd: WOW air

WOW air var rekið með umtalsverðum hagnaði árin 2015 og 2016 líkt og kom fram í tilkynningum sem félagið sendi frá sér í febrúar í fyrra og hittifyrra. Í ár hafa hins vegar engin tíðindi borist af afkomunni hjá flugfélaginu en þar sem fyrirtækið er alfarið í eigu Skúla Mogensen þá ber því ekki skylda til að birta þessar upplýsingar úr rekstri sínum opinberlega. Öfugt við það sem skráð hlutafélag eins og Icelandair Group þarf að gera.

Í ljósi stóraukinna umsvifa WOW air og þeirrar staðreyndar að eigandinn sjálfur hefur sagt að það yrði mikið högg fyrir íslenskt þjóðarbú ef rekstur Icelandair eða WOW air myndi stöðvast þá er óhætt að fullyrða að margir bíði eftir upplýsingum um stöðu flugfélagsins. Þess má þó geta að það kom fram í máli Skúla Mogensen nýverið að velta WOW hafi verið 50 milljarðar í fyrra. Það er aukning um 36% frá árinu 2016.

Það er Samgöngustofa sem hefur eftirlit með rekstri íslenskra flugrekenda og Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri stofnunarinnar, segir í svari til Túrista að fylgst sé með fjárhagsstöðu allra flugrekenda og matið er í venjulegum farvegi. „Hluti af því ferli er að beðið er um viðbótar gögn ef nánari skýringa er óskað og það er hluti af venjulegu mati,“ segir Þórhildur og bætir því við að frestur flugrekenda til að skila ársreikningi renni ekki út fyrr en í lok júní.

Aðspurð um reksturinn í fyrra og hvenær tilkynnt verði um afkomuna þá segir Svanhvít Friðriksdóttir, talskona WOW air, að ekki liggi fyrir hvenær ársuppgjörið verði birt opinberlega en verið sé að leggja lokahönd á uppgjörið. Svanhvít bætir því við að WOW fylgi öllum reglum Samgöngustofu og skili inn þeim gögnum sem félaginu ber á tilsettum tíma.