Vinsælasta víðavangshlaupið í Stokkhólmi

Það er löng hefð fyrir Lindingö hlaupinu og í haust er búist við hátt í 37 þúsund hlaupurum.

Þó margir taki þátt í Lidingöhlaupinu þá dreifist fjöldinn vel eftir brautinni. Í 30 km hlaupinu er pláss fyrir rétt um 20 þúsund hlaupara. Mynd: Peter Holgersson / BILDBYRÅN / Cop 102

Segja má að íbúafjöldinn á Lidingö fari nálægt því að tvöfaldast helgina sem víðavangshlaupið, sem við eyjuna er kennt, fer fram. Það er því stríður straumur fólks sem fer frá Ropsten lestarstöðinni í austurhluta Stokkhólms og yfir brúna til Lidingö þessa þrjá hátíðardaga. Heimamenn tryggja þó að samgöngurnar gangi vel fyrir sig og bjóða upp á tíðar og ókeypis strætóferðir yfir á mótsvæðið og aftur tilbaka.

Og það er ekki að ósekju að Lidingöloppet hefur náð svona miklum vinsældum því þarna gefst íbúum sænsku höfuðborgarinnar tækifæri á að hlaupa eftir fallegum skógarstígum sem liggja upp og niður og í allar áttir en samt er brautin aðeins stuttan spöl frá miðborg Stokkhólms.

Í fyrra tóku 37 þúsund manns í Lidingöloppet, eins og það kallast á sænsku, og búist er við álíka fjölda í ár. Aðalkeppnin nær yfir 30 kílómetra og telst hún vera „Sænskur klassíker“ og er því í hópi með ekki ómerkari þolraunum en hinni 300 km löngu hjólaleið í kringum Vattern og Vasagöngunni víðfrægu. Þessi heiðurs sess sem Lidingöhlaupið hefur fengið gerir það að verkum að fólk kemur víða að til að taka þátt og í ár er búist við keppendum frá hátt í níutíu þjóðu. Þar af verða vafalítið ófáir Íslendingar enda margir landar okkar búsettir í Stokkhólmi.

Sem fyrr segir er lengsta brautin þrjátíu kílómetrar og hlaupið því nokkru styttra en fullt maraþon en engu að síður ráðleggur Niklas Gabrielsson, hjá Lidingöloppet, fólki að æfa vel fyrir og sérstaklega brekkuhlaup. „Bæði upp og niður,” bætir hann við. Niklas biður líka þá lesendur Túrista sem ætla að hlaupa um Lindingö í haust að gefa sér tíma til að horfa í kringum sig og njóta útsýnisins og náttúrunnar.

Lidingöhlaupið fer fram síðustu helgina í september og það borgar sig að skrá sig tímalega. Hægt er velja á milli ólíkra vegalengda en bæði 15km og 30km hlaupið fara fram á laugardeginum sem er heppilegt fyrir þá hlaupara sem ætla að nýta tímann til að skoða Stokkhólm í leiðinni.

Nú bjóða þrjú flugfélög upp á áætlunarflug til Stokkhólms frá Keflavíkurflugvelli; Icelandair, WOW air og Norwegian. Það ætti því að vera hægt að finna ódýra flugmiða en áður en þeir eru bókaðir eru vissara að tryggja sér númer í hlaupinu vinsæla. Þátttökugjaldið er rétt um 800 sænskar kr. eða tæpar 10 þúsund íslenskar.


Frá fimmtudegi til sunnudags er hægt að fá ódýrara far með Arlanda Express hraðlestinni frá flugvellinum og niður í bæ. Sjá hér