Virkar ekki fyrir flugfélög að reka hótel

Stjórn Icelandair Group hefur ákveðið að selja hótelreksturinn en það er fátítt að flugfélög í dag séu jafnframt á gistimarkaðnum.

Canopy by Hilton í miðborg Reykjavíkur er rekið af Icelandair hótelunum. Mynd: Icelandair hótelin

„Almennt virkar það ekki fyrir flugfélög að eiga hótel og þetta er ekki viðskiptamódel sem gengur upp annars staðar í Evrópu. En gæti gert það á Íslandi,” sagði Jacob Pedersen, yfirmaður greiningardeildar Sydbank í Danmörku, í samtali við Túrista fyrir tveimur árum. Pedersen er virtur álitsgjafi í dönskum fjölmiðlum um norræn flugfélög en í þeim hópi eru eigendur Icelandair og WOW air sér á báti. SAS hefur nefnilega fyrir löngu selt öll sín hótel og stór flugfélög eins og Finnair og Norwegian hafa ekki farið út í hótelrekstur. Talsmaður þess síðarnefnda sagði í fyrrnefndri frétt Túrista að þar væru engin áform uppi um að eignast hótel. „Við einbeitum okkur að kjarnastarfseminni sem er að bjóða upp góðar flugsamgöngur á lágu verði,” sagði Lasse Sandaker Nielsen, talsmaður Norwegian, við Túrista.

Icelandair hefur hins vegar lengi verið stórtækt á íslenska gistimarkaðnum og Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, átti gistihús á gamla varnarliðssvæðinu og hyggst opna hótel í Kópavogi. Íslensku flugfélögin hafa því farið aðra leið en þau norrænu og reyndar er leit að vestrænu flugfélagi sem rekur líka gististaði. SAS seldi Radisson hótelin sín árið 2009 og í dag eru engin tengsl lengur milli easyJet flugfélagsins og easyhótelanna.

Nú hefur stjórn Icelandair hins vegar ákveðið að einbeita sér að flugrekstrinum og selja hótelin líkt og kom fram í tilkynningu á föstudag. Um er að ræða 13 gististaði með samtals nærri tvö þúsund hótelherbergi og munu innlendir og erlendir aðilar hafa sýnt kaupum á þessari starfsemi áhuga.