WOW air boðar til blaðamannafundar í Nýju-Delí

Á þriðjudaginn ætlar Skúli Mogensen að kynna Indverjum áform sín um flug til landsins.

Innan nokkurra mánaða gætu boðist beinar flugferðir héðan til Nýju-Delí. Mynd: Frank Holleman / Unsplash

Indverskum blaðamönnum hefur verið boðið að hitta Skúla Mogensen, forstjóra og eigenda WOW air, á hinu fimm stjörnu Oberoi hóteli, í útjaðri Nýju-Delí, í hádeginu á þriðjudag. Þar hyggst Skúli skýra frá áætlunum flugfélagsins um að hefja flug til Indlands og í ljósi staðsetningar fundarins má gera ráð fyrir að Nýja-Delí verði fyrsti áfangastaður WOW air í Asíu. Þetta kemur fram í danska ferðamiðlinum Checkin.dk.

Búist hefur verið við að WOW air svipti hulunni af áformum félagsins í Asíu nú vor enda bætast fjórar stórar breiðþotur við flugflotann í lok árs og þar með gefst færi á að útvíkka leiðakerfið verulega. Skúli hefur líka víða talað um að hann sjái tækifæri í beinu flugi frá Keflavíkurflugvelli til fjölmargra áfangastaða í Asíu. Er þá líklega fyrst og fremst horft til skiptifarþega á leið milli Asíu og N-Ameríku en líka erlenda ferðamenn á leið til Íslands. Það tekur álíka langan tíma að fljúga frá Keflavíkurflugvelli til Nýju-Delí og það tekur að fljúga til San Francisco eða um níu og hálfan klukkutíma.

Líkt og Túristi greindi frá þá ætlar Icelandair einnig að hefja flug til Indlands en það yrði ekki fyrr en næsta haust. Það er því ljóst að fljótlega gæti flóra flugfarþega á Keflavíkurflugvelli orðið nokkru fjölbreyttari en nú er.