6 flugfélög munu fljúga milli Íslands og London í vetur

Áfram harðnar samkeppnin um farþega á leið milli Íslands og höfuðborgar Bretlands. Ódýrasti farmiðinn kostar 2.758 krónur og hægt er fljúga báðar leiðir fyrir rúmlega 7 þúsund kr.

Til London verður flogið 82 sinnum í viku í vetur. Mynd: Mike Stezycki/Unsplash

London er sú borg sem oftast er flogið til frá Keflavíkurflugvelli og er umferðin mest yfir háveturinn enda fjölmenna Bretar í Íslandsferðir á þeim árstíma. Til marks um það þá komu jafn margir Bretar hingað til lands í febrúar síðastliðnum  og samanlagt yfir sumarmánuðina þrjá í fyrra. Flugumferðin í febrúar í ár var líka meiri en nokkru sinni fyrr eða 81 ferð í viku. Skiptust þær á milli fimm flugfélaga og er þetta meiri samkeppni á nokkurri annarri flugleið til og frá Íslandi. Baráttan um farþegana mun harðna í vetur því þá munu sex flugfélög bjóða upp á reglulegar ferðir milli Íslands og London því nú bætist Wizz Air við hópinn. Í heildina fjölgar ferðunum þó bara um eina þar sem önnur flugfélög hafa gert breytingar á áætlun sinni frá síðasta vetri eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Mjög ódýrir farmiðar

Allt þetta framboð virðist hafa áhrif á verðlagið því núna er hægt að finna flugmiða með easyJet og Norwegian frá Keflavíkurflugvelli til London á rétt um 2800 krónur og ódýrustu farmiðarnir hjá British Airways eru á rúmlega fjögur þúsund krónur. Framboð á þessum hræódýrum miðum takmarkast þó oft við sárafáar dagsetningar. Hjá Icelandair og WOW air má líka finna ódýra flugmiða og virðist úrvalið af þeim vera töluvert. Ódýrustu miðarnir hjá WOW air eru á 4.999 auk bókunargjalds en 7.835 krónur hjá Icelandair. Ódýrustu fargjöldin í dag eru álíka há og rútumiðarnir að Leifsstöð kosta.

Þegar úrvalið er orðið svona mikið þá er gott að nýta leitarvélar eins og Momondo til að bera saman fargjöld og sjá hvernig verðlagið þróast á milli daga. Stundum getur nefnilega borgað sig að fljúga með einu flugfélagi út og öðru heim. Hafa ber í huga að farangur fylgir ekki ódýrustu fargjöldunum hjá flugfélögunum sex.