Samfélagsmiðlar

60 þúsund færri sumarferðamenn

Þeir útlendingar sem sækja Ísland heim yfir sumarið dvelja hér lengur en aðrir og koma víðar við. Ferðamálastjóri segir ljóst að ferðaþjónustan verði að búa sig undir einhvern samdrátt í sumar.

Ferðamenn við Námaskarð.

Yfir sumarmánuðina þrjá í fyrra flugu 778 þúsund erlendir ferðamenn frá landinu en þeir verða 60 þúsund færri ef ný spá Isavia gengur eftir. Hlutfallslega nemur fækkunin um 8 prósentum en þegar allt þetta verður gert upp þá gerir spá Isavia ráð fyrir fjölgun ferðamanna um 2,6 prósent. Það er miklu minni viðbót en árin á undan en í takt við það sem þekkist í löndunum í kringum okkur.

Hinn mikli samdráttur yfir sumarið gæti haft neikvæðari áhrif út á landi en á höfuðborgarsvæðinu því yfir háannatímann fara ferðamenn víða um landið og dvelja í lengri tíma. Þannig tók hefðbundin Íslandsferð að jafnaði í 4 daga síðastliðið sumar á meðan ferðamenn stoppuðu hér að meðaltali í 3,2 daga á öðrum árstímum samkvæmt útreikningum sem byggja á gistitölum Hagstofunnar og talningum Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli. Gangi spá Isavia eftir þá gæti gistinóttum útlendinga hér á landi fækkað um 242 þúsund í sumar miðað við dvalartímann síðastliðið sumar. Til samanburðar þá voru keyptar gistinætur á Vestfjörðum, allt árið í fyrra, samtals 161 þúsund og 313 þúsund á Austurlandi.

Mikilvægt að huga að kostnaði

Að mati Skarphéðins Berg Steinarssonar, ferðamálastjóra, er áætlun Isavia nokkuð ábyggileg enda byggir hún á raunverulegu sætaframboði í flugi. „Það er ljóst að ferðaþjónustan þarf að búa sig undir einhvern samdrátt í sumar. Þennan samdrátt verður einnig að skoða í því ljósi að verðskrár fyrirtækja eru jafnan hæstar á sumrin og þannig mikilvægasta tími ársins. Við þessar kringumstæður er mikilvægt að fyrirtækin hugi að kostnaði og hagræðingu í rekstri,“ segir Skarphéðinn og telur tækifæri í að auka notkun tæknilausna til að bæta framleiðni.

Ekki heppilegasta leiðin til að jafna árstíðarsveiflur

„Þessi breytti veruleiki er gríðarleg áskorun fyrir ferðaþjónustuna en um leið gætu verið tækifæri fólgin í þessari þróun til að hugsa meira til framtíðar því íslensk ferðaþjónusta á vafalítið bjarta framtíð. Það er erfitt að undirbúa þá framtíð á meðan atvinnugreinin er í veldisvexti. Þó að það sé samdráttur má líka ekki gleyma að það þyrfti algjöra kollsteypu og meira en helmings fækkun til að ferðaþjónustan væri álíka umsvifamikil og árið 2014, þegar mörgum þurfti nóg um. Hvað varða heildarumsvifin og fjölda ferðamanna erum við því orðin ansi góðu vön,“ segir Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.

Konráð segir að það kæmi ekki á óvart ef útflutningstekjur af ferðaþjónustu hér á landi dragist lítillega saman í ár þar sem miðað er við að fækkunin í komum ferðafólks verði mest á þeim tíma sem dvalartími þeirra er lengstur. „Þetta er þá kannski ennþá meiri áskorun en lítur út fyrir í fyrstu. Þó að jöfnun árstíðarsveiflunnar sé í sjálfu sé jákvæð er þetta ekki heppilegasta leiðin að því, sérstaklega ef markmiðið er líka að tryggja jafnari dreifingu ferðamanna um landið. Þeir ferðamenn sem koma að sumri til, t.d. frá meginlandi Evrópu, eru einmitt þeir sem dvelja hvað lengst annars staðar en á suðvestur horninu.“

Þess ber að geta að frávikin í talningu Ferðamálastofu eru hærri yfir sumarmánuðina miðað við þær kannanir sem Isavia hefur nú gert þrívegis til að meta fjölda sjálftengifarþega og útlendinga sem eru búsettir á Íslandi. Hvorugar hópinn er hægt að skilgreina sem ferðamenn.

 

 

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …