8 manna sveit fylgist með ólöglegri heimagistingu

Sérstakir starfsmenn á vegum Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu eiga að ganga á milli húsa þar sem leikur grunur á ólöglegri skammtímaleigu.

airbnb a
Skjámyndir af vef Airbnb

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í gærmorgun að veita 64 milljónum í 12 mánaða átak sem snýr að hertu eftirliti með heimagistingu. Þetta kom fram í fréttum RÚV og þar var haft eftir Þórdísi Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamálaráðherra, að hún hafi að undanförnu átt viðræður við hlutaðeigandi aðila um hvernig megi auka eftirlit með heimagistingu þannig að regluverkið um þessa starfsemi virki sem skyldi.

Með þessari aukafjárveitingu fær Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu meðal annars til sín átta starfsmenn en fjórir þeirra eiga að sinna vettvangsrannsóknum á grundvelli ábendinga sem berast. Til samanburðar má geta að í Barcelona fer 40 manna sveit um götur borgarinnar til að fylgjast með þeim 16 þúsund gistirýmum sem Airbnb hefur á sínum snærum í höfuðborg Katalóníu. Hér á landi eru gistirýmin tæplega 5 þúsund. Íslenska Airbnb sveitin þarf því að fylgjast með færri gistingum en hins vegar um allt land á meðan þau í Barcelona einbeita sér bara að borginni sjálfri.

Í frétt RÚV var það haft eftir ráðherra ferðamála svona eftirlit sé vandmeðfarið. Tilgangurinn sé að fá fólk sem er að leigja íbúð eða herbergi undir níutíu daga til að skrá sig og að þeir sem eru gera umfram það fari annað hvort undir níutíu dagana eða skrái starfsemina sem atvinnurekstur. „Við viljum sjá heilbrigt samkeppnisumhverfi og verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja það.“ Það þarf síðan, að mati ráðherra, að finna einhverja lausn til framtíðar. Þær viðræður séu í fullum gangi og verið sé að stilla þá strengi betur saman. „En ég hef hvergi heyrt neina töfralausn.“

Ráðherra skattamála í Danmörku telur sig hins vegar hafa fundið lausn sem geti virkað því Airbnb hefur heitið að afhenda dönskum skattayfirvöldum upplýsingar um greiðslur til danskra leigusala. Samkvæmt svari frá upplýsingafulltrúa Airbnb í Danmörku þá gæti þessi lausn orðið fyrirmynd að samkomulagi við yfirvöld hér á landi og víðar. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur Túristi ekki fengið viðbrögð frá íslenska fjármálaráðuneytinu við því. Eins fást ekki svör hvort einhverjar viðræður eigi sér stað við bandarísku gistimiðlunina sem hefur verið mjög umsvifamikil á íslenska gistimarkaðnum síðustu ár.