Veðrið hefur leikið við frændþjóðirnar nú í sumarbyrjun og þar með hefur bekkurinn verið þéttskipaður fyrir utan veitingahúsin í Stokkhólmi á meðan fáir sitja inni. Það er þó ekki nóg að setja borð út á stétt til að komast á lista sænska dagblaðsins Dagens Nyheter yfir bestu úti veitingahúsin í sænsku höfuðborginni.
Hér eru nokkur þeirra sem hlutu náð fyrir augum skríbenta Dagens Nyheter:
- Ef þú lætur þér ekki nægja að sitja og njóta heldur vilt líka hafa eitthvað fyrir stafni þá er Boule barinn við Rålambshovsparkern á Kungsholmen staðurinn. Við boule völlinn er boðið upp á suðfranskan mat, ostrur og kampavín og fleira fínt. Látlausara í val á veitingum er einnig í boði.
- Útsýnið af svölum Konunglegu óperunnar er frábært og bar hússins nýtur því mikilla vinsælda á sumrin. Hér sýpur þú á kokteilum og horfir yfir að konungshöllinni, þinghúsinu og út á Mäleren. Strömterrassen er við Stömgatan 14.
- Það er líka eftirsótt að komast á svalirnar við Södra leikhúsið og horfa þá í öfuga átt við þá sem eru á svölum Óperuhússins. Bar leikhússins er opinn miðvikudaga til laugardaga yfir sumarið. Champagnebaren, Södra Teatern.
- Ef þú vilt gefa börnum tækifæri á leik á sama tíma og þú hressir þig við í hitanum þá er Bleck við Blecktornsparken á Söder álitlegur staður. Bleck, Katarina Bangatan 68.
- Tvö hundruð sólstólar, útitónleikar, hamborgarar, nachos og fleira í þeim stíl á Solstugan en þaðan er útsýnið yfir Mäleren ljómandi gott.
- Á kajanum við Gamla stan eru nokku lágreist hús og í einu þeirra er stór veitingastaður sem kallast Mr. French. Á stéttinni við bryggjukantinn er boðið upp á bröns, hádegismat, kvöldmat með frönsku og arabísku þema. Mister French er í Tullhus 2.
- Steikt síld, fiskborgarar, samlokur og fleiri einfaldir réttir við Liljeholmsbron í suðurhluta borgarinnar og að sjálfsögðu fylgir ótakmarkaður aðgangur að sólinni, svo lengi sem hún sýnir sig. Loopen er við Hornstulls strand 6.
- Skeppsholmen er lítil eyja í miðborginni sem hýsir m.a. Moderna safnið og fleiri góð. Þarna er líka fallegt hótel og eigendur þess bjóða auðvitað fólki upp á að setjast út í græna garðinn og njóta veitinga og sóla sig smá. Hotel Skeppsholmen er við Gröna gångem 1.
—
Frá fimmtudegi til sunnudags er hægt að fá ódýrara far með Arlanda Express hraðlestinni frá flugvellinum og niður í bæ. Tilboðið gildir líka yfir hásumarið. Sjá hér