Boðar hærri fargjöld

Olíuverð hefur hækkað það mikið síðustu misseri að það verður ekki komist hjá því að hækka farmiðaverðið að mati forsvarsmanna Norwegian.

Það þarf fleiri tonn af eldsneyti til að koma farþegaþotu á milli staða. Hátt olíuverð hefur því alla jafna áhrif á farmiðaverðið. Mynd: Aman Bhargava/Unsplash

Norska lágfjargjaldafélagið Norwegian flýgur hingað til lands frá átta evrópskum borgum og flugmiðarnir í Íslandsflugi félagsins eru oft á tíðum mjög ódýrir. Þannig býður félagið í dag flugmiða milli Íslands og London í vetur á rúmlega 4 þúsund krónur og til Rómar má komast fyrir 11 þúsund krónur. Þessi lágu fargjöld gætu þó hækkað á næstunni því stjórnendur Norwegian segja að hið síhækkandi olíuverð gæti fljótlega skilað sér út í verðlagið. Þetta kemur fram í frétt norska ferðaritsins Flysmart24.

Þar er haft eftir talskonu Norwegian að ekki sé ætlunin að leggja á fast eldsneytisgjald á alla flugmiða heldur muni þeir hækka mismunandi mikið eftir flugleiðum. Þar ráði framboð og eftirspurn ferðinni. Samkvæmt frétt Flysmart24 þá útiloka forsvarsmenn SAS ekki samskonar hækkanir en staðan þar á bæ er þó talsvert önnur en hjá Norwegian því SAS hefur gert framvirka samninga um kaup á 90% af því eldsneyti sem félagið þarf á að halda á næstunni. Norwegian er mun verr varið fyrir olíuhækkunum en verð á þotueldsneyti er í dag um helmingi hærra en það var fyrir ári síðan.

Til samanburðar má nefna að Icelandair kaupir ríflega helming af sínu eldsneyti á föstu verði fram í tímann á meðan WOW air er óvarið líkt og Túristi hefur áður sagt frá.