Dýrt og flókið að fljúga til Volgograd og Rostov

Það eru lausir miðar á næstu tvo leiki Íslendinga á HM í Rússlandi en framboð á flugi er lítið og ferðlagið yrði langt.

Mynd: Peter Glaser/Unsplash

Forráðamenn Knattspyrnusamband Íslands vilja fá íslenska stuðningsmenn í þau sæti sem ennþá eru óseld á leiki íslenska liðsins í Volgograd og Rostov. Í frétt Mbl.is segir að starfsfólk sambandsins geti aðstoðað fólk við að fá stuðningsmanna skírteini (Fan-ID) en eitt slíkt er forsenda fyrir því að viðkomandi komist inn á fótboltavellina. Skírteinin koma líka í stað vegabréfaáritunar.

Tilhugsunin um lausa miða á leikina á móti Nígeríu og Króatíu hefur vafalítið hreyft við mörgum en það er engin launung að það er erfitt að finna þægilegt flug til Volgograd og Rostov. Og lestarferðirnar þangað frá Moskvu geta tekið á bilinu 15 til 20 klukkutíma. Túristi hefur notfært sér allskonar flugbókunarsíður til að leita að flugferðum en flestar finna aðeins ferðir með tveimur og allt að þremur millilendingum. Flugið yrði þó ekki bara langt því það myndi kosta á bilinu 120 til 160 þúsund að fljúga til borganna tveggja ef ferðalagið hefst í Leifsstöð. Fyrir nærri sömu upphæð er hægt að fljúga til Volgograd á fimmtudaginn og heim frá Rostov á miðvikudaginn í næstu viku eftir leik Íslends og Króatíu.

Það að sjá leikina báða hljómar auðvitað spennandi en ferðalagið á milli borganna tveggja tekur um 12 tíma í rútu. Það er þó möguleiki að fljúga frá Volgograd til Moskvu og dvelja þar í 2 nætur áður en haldið er suður til Rostov. En eins og áður segir þá verður þetta aldrei ódýrt ferðalag því við flugfargjaldið bætist gisting, uppihald og auðvitað miðar á leikina.

Af úrvalinu hjá Booking.com að dæma þá er ennþá hægt að finna laus hótel í Volgograd og Rostov í kringum leikdagana sjálfa.