Fleiri í borgarferðir til Berlínar

Hinar auknu flugsamgöngur milli Íslands og höfuðborgar Þýskalands hafa ýtt undir ferðalög landans til borgarinnar.

berlin sol

Í vetur hefur ferðaþjónustan í Berlín verið að jafna sig eftir gjaldþrot Airberlin en félagið var það umsvifamesta í flugi til og frá höfuðborginni. Það hefur tekið tíma fyrir önnur flugfélög að fylla skarð Airberlin og eitt þeirra félaga sem það gerði var Icelandair sem hóf áætlunarflug til Tegel flugvallar í vesturhluta borgarinnar í nóvember. WOW air bætti einnig við ferðum til Schönefeld og flugsamgöngurnar milli Íslands og Berlínar urðu því tíðari en áður.

Það er líklega ein helsta skýringin á þvi að fjöldi íslenskra ferðamanna í Berlín jókst þónokkuð fyrstu þrjá mánuði ársins. Samtals bókuðu Íslendingar 8.073 gistinætur í borginni sem er aukning um 12 prósent frá sama tímabili í fyrra samkvæmt tölum frá ferðamálaráði borgarinnar. Þar kemur einnig fram að meðaldvöl íslensku ferðamannanna var 3,2 nætur.

Yfir sumarmánuðina hefur þýska lággjaldaflugfélagið Eurowings boðið upp á áætlunarferðir hingað frá Berlín en svo verður ekki í sumar. Forráðamenn félagsins hafa átt í fullu fangi með að tryggja sér þau lendingarleyfi sem Airberlin skildi eftir sig og hafa því gert töluverðar breytingar á flugáætlun sinni. Íslandsflugið frá Berlín var ein þeirra flugleiða sem datt upp fyrir.