Flýta jómfrúarferðinni frá Vínarborg

Samgöngubótin sem boðuð var milli Íslands og Austurríkis verður fyrr á ferðinni en fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir.

vin2
Frá Vínarborg. MYND: WIENTOURISMUS

Í sumar verður úrvalið af flugferðum héðan til Austurríkis helmingi minna en áður. Skrifast það á brotthvarf FlyNiki en rekstur þessa austurríska flugfélags stöðvaðist í vetur þegar móðurfélagið, hið þýska Airberlin, varð gjaldþrota. FlyNiki hafði um árabil boðið upp næturflug frá Keflavíkurflugvelli yfir sumarmánuðina í samkeppni við leiguflugfélagið Austrian Holidays. Það síðarnefnda er nú eitt um flugleiðina en sinnir henni aðeins fram í ágúst og þá leggst af allt beint flug héðan til Austurríkis. Um jólin hefjast svo vikulegar ferðir WOW air með skíðaáhugafólk til Salzburg en engar ferðir hafa verið í boði til Vínarborgar yfir vetrarmánuðina.

Á því verður hins vegar breyting í lok næsta vetrar því stjórnendur ungverska lággjaldaflugfélagsins Wizz Air hafa ákveðið að hefja Íslandsflug félagsins frá Vínarborg fyrr en áður hafði verið áformað. Upphaflega var jómfrúarferðin til Keflavíkurflugvallar á dagskrá í lok mars, þegar sumaráætlunin fyrir árið 2019 hefst, en henni hefur verið flýtt til 16. febrúar. Í svari flugfélagsins, við fyrirspurn Túrista, segir að ástæðan fyrir þessu sé einfaldlega sú að eftirspurn eftir flugi milli Vínarborgar og Reykjavíkur hafa verið mikil. „Við erum ánægð með að geta hleypt flugleiðinni af stokkunum fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir,“ segir jafnframt í svarinu.

Hallar á Austurríkismenn

Í samanburði við Sviss þá hefur framboð á flugi hingað frá Austurríki verið lítið og það kann að vera ein helsta skýringin á því að síðastliðið sumar komu hingað rétt um 16 þúsund Svisslendingar en tæplega 10 þúsund Austurríkismenn samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Í vor hafa komið hingað að jafnaði nærri sextán hundruð Svisslendingar á mánuði en tæplega átta hundruð Austurríkismenn. Þjóðirnar tvær eru nánast jafn fjölmennar.

Gætu fengið samkeppni um farþegana

Það er ekki ólíklegt að Wizz air fái samkeppni fyrr en síðar á þessari nýju flugleið félagsins. Breska lággjaldaflugfélagið easyJet, sem hefur verið stórtækt á Keflavíkurflugvelli, er að koma sér fyrir í Vín og gæti því hæglega bætt við flugi hingað. En líkt og Túristi greindi frá í síðustu viku þá mun easyJet halda úti flugi milli Íslands og svissnesku borgarinnar Basel í allan vetur. Það má líka gera ráð fyrir að íslensku flugfélögin horfi til Vínarborgar og þá sérstaklega Icelandair því á afkomufundi flugfélagsins í byrjun maí sagði forstjórinn Björgólfur Jóhannsson að félagið gæti farið að fljúga lengra og dýpra inn í Evrópu. Hingað til hefur nærri allt flug Icelandair til Evrópu takmarkast við ferðir sem ekki taka ekki meira en fjóra tíma en flugtíminn til Vínarborgar er fjórir og hálfur klukkutími.