Hætta flugi til Orly í París

Frá og með lokum október leggjast af ferðir Icelandair til Orly en félagið bætir í framboðið til Charles de Gaulle í staðinn.

orly paris
Frá Orly flugvelli við París. Mynd: Paris Aeroport

París hefur lengi verið vegamikill hluti af leiðakerfi Icelandair og síðustu ár hafa þotur félagsins flogið tvisvar til þrisvar á dag til Charles de Gaulle flugvallar. Þrátt fyrir ferðafjöldann þá var íslenska flugfélagið lengi á biðlista eftir afgreiðslutímum á Orly flugvelli í norðurhluta borgarinnar. Sá er líka þéttsetinn en þegar rússneska flugfélagið Transaero varð gjaldþrota í árslok 2015 fékk Icelandair lendingarleyfi félagsins og hóf flug til Orly vorið eftir. Síðustu tvö ár ár hefur flugfélagið boðið upp á allt að sex ferðir í viku til Orly og hafa þær verið hrein viðbót við flugið til Charles de Gaulle.

Í lok október næstkomandi verður flugleiðin til Orly hins vegar lögð niður. Guðjón Arngrímsson, talsmaður Icelandair, segir helstu ástæðuna fyrir þessum breytingum vera þá að reynslan hafi gefið til kynna að flug til Charles de Gaulle gefi betri raun og þá sérstaklega þegar kemur að Bandaríkjamarkaði. En Icelandair hefur bætt verulega í flugið vestur um haf og er í dag næst umsvifamesta evrópska flugfélagið í N-Ameríku í áfangastöðum talið. Guðjón segir að framboð á flugsætum með Icelandair til Charles de Gaulle verði aukið í vetur um nærri 40 prósent og þá aðallega með því að nota stærri þotur í flugið.

Auk Icelandair býður WOW air upp á flug til Charles de Gaulle allt árið um kring og yfir sumarið býður Transavia upp á næturflug héðan til Orly. Flughöfnin er því ennþá hluti af því úrvali sem farþegum á Keflavíkurflugvelli stendur til boða. En frá Orly er framboð á innanlandsflugi mikið.

Á sama tíma og Icelandair hættir flugi til Orly flugvallar þá hefur félagið flug til þýsku borgarinnar Dusseldorf.