Icelandair endurnýjar kynnin af San Francisco

Eftir rúmlega áratugs fjarveru eru þotur Icelandair á ný farnar að fljúga til Kaliforníu og nú allt árið um kring.

Frá brekkunum í San Francisco. Mynd: Ragnar Vorel / Unsplash

Icelandair hóf um helgina áætlunarflug til San Francisco og er borgin 23. áfangastaðurinn í Norður-Ameríku sem Icelandair býður upp á í leiðakerfi sínu. Flogið verður fjórum sinnum viku fram í október en tvisvar sinnum í hverri viku í vetur.

San Francisco, sem var í leiðakerfi Icelandair í tvö sumur fyrir rúmum áratug, er ein þekktasta og vinsælasta ferðamannaborg í heimi og jafnframt ein af fjölmennustu borgum Bandaríkjanna með um 9 milljónir íbúa á San Francisco Bay Area svæðinu. Icelandair er þó ekki eina flugfélagið sem tengir borgina við Ísland því WOW air flýgur einnig þangað allt árið um kring.

Íslensku flugfélögin tvö hafa farið ófá jómfrúarflugin til Bandaríkjanna síðustu vikur og hefur úrvalið af bandarískum áfangastöðum aldrei verið meira fyrir farþega á Keflavíkurflugvelli.