Korthafar gætu tvítryggt sig fyrir sjálfsábyrgð bílaleiga

Kaskótryggingin er vanalega hluti af leiguverðinu en öðru máli gegnir sjálfábyrgðina og það er dýrt að kaupa sig frá henni. Þessi viðbótartrygging ætti þó að vera hluti af öllum platínum og premium greiðslukortum sem gefin eru út á Íslandi.

bill gong Alexandre Perotto
Mynd: Alexandre Perotto / Unsplash

Ef þú lendir í tjóni á bílaleigubíl máttu gera ráð fyrir að þurfa að borga að minnsta kosti um 150 þúsund krónur í sjálfsábyrgð. Þetta er há upphæð og því kjósa vafalítið margir að borga fyrir niðurfellingu á þessari ábyrgð með því að bóka sérstaka tryggingu sem kallast „Super Damage Waiver” hjá bílaleigunum.

Þóknunin fyrir þessa viðbót við kaskótrygginguna er 2 til 6 þúsund krónur á dag hjá evrópskum bílaleigum og ræðst upphæðin af bílategund og landsvæðum. Reikningur bílaleigunnar getur því hækkað um tugi prósenta ef leigutakinn kýs enga sjálfsárbyrgð. Og það er væntanlega helsta skýringin á því að starfsmenn bílaleiga virðast leggja ofurkapp á að selja fólki þessar tryggingar þegar lyklarnir eru sóttir. Á þeirri stundu eru margir hins vegar orðnir ferðalúnir og vilja bara komast í bílinn til að ljúka síðasta hluta ferðalagsins. Þá hljómar aukareikningur upp á þúsundir króna betur en að þurfa að borga á annað hundrað þúsund krónur í sjálfsábyrgð.

Staðreyndin er samt sú að margir eru þarna að tvítryggja sig. Það sýna t.d. danska kannanir en þar í landi er þessi niðurfelling á sjálfsábyrgð hluti af heimilistrygginginu. Það mun þó ekki eiga við um íslenskar tryggingar samkvæmt því sem Túristi kemst næst. Hins vegar ættu þeir sem eru með platínum eða premium kreditkort frá íslenskum bönkum og greiðslukortafyrirtækjum að vera með þessa tryggingu og er sjálfábyrgðin oftast 25 þúsund krónur. Það er því vissara að ganga úr skugga um að svo sé áður en bíllinn er sóttu á erlendu bílaleiguna og komast þannig hjá því að tvítryggja sig.

Það vekur þó athygli að kaflinn um bílaleigutrygginguna í vátryggingaskilmálunum sem fylgja premium og platínum kreditkortum eru óvenju langur. Sem dæmi þá eru vátryggingaskilmálarnir upp á 15 síður hjá VÍS og þar af er þriðjungur þeirra helgaður bílaleigutryggingunni. Af þessu að dæmi þá eru réttur leigutakans því ekki kristaltær og mörg vafaatriði sem geta komið upp.

Í þessari samantekt Túrista má finna fleiri atriði sem gott er að hafa í huga áður en bílaleigubíll er bókaður.