Lufthansa sýnir Norwegian líka áhuga

Forsvarsmenn British Airways eru ekki þeir einu sem sjá tækifæri í norska lággjaldaflugfélaginu Norwegian.

Mynd: Norwegian

Um miðjan apríl spurðist það út að IAG, móðurfélag British Airways, Iberia og fleiri flugfélaga, ætti orðið 5% hlut í Norwegian og áhugi væri fyrir því að taka norska flugfélagið yfir. Í kjölfarið rauk hlutabréfaverðið upp um rúm 40% eftir að hafa lækkað hratt mánuðina á undan því það er engin launung að rekstur Norwegian gengur illa. Í lok vetrar þurftu eigendur félagsins til að mynda að leggja því til meira fjármagn. Nú hafa stjórnendur IAG lagt fram tvö tilboð í Norwegian en þeim hefur báðum verið hafnað.

Í síðustu viku tilkynntu Norðmennirnir að fleiri áhugasamir kaupendur hefðu sett sig í samband en ekki fylgdi sögunni hverjir það voru. Í morgun hafði þýska blaðið Süddeutsche Zeitung það hins vegar eftir Carsten Spohr, forstjóra Lufthansa samsteypunnar, að félagið hans sé að skoða kaup á Norwegian. Sagði Spohr að það væri hrina sameininga framundan í evrópska fluggeiranum og því töluðu allir við alla.

Rekstur Lufthansa hefur gengið vel síðustu ár og hefur félagið margsinnis verið orðað við kaup á skandinavíska flugfélaginu SAS. Nú horfa Þjóðverjarnir hins vegar til Norwegian sem er orðið stærsta flugfélag Norðurlanda og takmarkast umsvif félagsins síður en svo við norðurhluta Evrópu. Félagið er með starfsstöðvar víða um álfuna og flýgur til að mynda til Íslands frá átta evrópskum borgum. Norwegian hefur jafnframt verið stórtækt í svokölluðu lággjaldaflugi milli Evrópu og N-Ameríku síðustu ár. Á þeim markaði er Lufthansa nú að koma sér fyrir með sókn Eurowings inn á bandaríska markaðinn.