Samfélagsmiðlar

Markmiðið að hækka tekjur af hverjum gesti

Forstjóri Bláa lónsins segist ekki gera ráð fyrir gestum fjölgi mikið frá því í fyrra en aukið vöruframboð á að leiða til hærri tekna.

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins.

Um átta af hverjum tíu erlendu ferðamönnum sem hingað koma greiða fyrir heimsókn í sund, náttúrulaug eða spa. Engin önnur afþreying nýtur álíka vinsælda hjá ferðafólkinu samkvæmt niðurstöðum landamærakönnunar Ferðamálastofu sem kynnt var í byrjun þessa mánaðar. Gera má ráð fyrir að þetta háa hlutfall skrifist að töluverðu leyti á Bláa lónið sem lengi hefur verið einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. Í fyrra tóku starfsmenn lónsins á móti 1,3 milljónum gesta en til samanburðar flugu um 2,2 milljónir erlendra farþega frá Keflavíkurflugvelli á síðasta ári.

Aðgangur í Bláa lónið sjálft stendur undir um sextíu prósent af tekjum fyrirtækisins og hefur það hlutfall verið nokkuð jafnt síðustu ár samkvæmt ársskýrslum fyrirtækisins. Í fyrra námu tekjurnar af þessum lið um 7,5 milljörðum sem er viðbót rúman 1,5 milljarð frá árinu á undan. Hlutfallslega nam aukningin 27 prósentum, í krónum talið, sem er álíka viðbót og varð í fjölda erlendra ferðamanna. Þessar tvær stærðir fylgjast þó ekki alltaf en báðar eiga það þó sameiginlegt að hafa hækkað umtalsvert síðustu ár.

Tækifæri í breiðara vöruframboði

Það sem af er þessu ári hefur fjöldi ferðamanna hins vegar staðið í stað og spár gera ráð fyrir litlum vexti í ár. Aðspurður hvort þessi þróun verði til þess að tekjur Bláa lónsins standi í stað í ár þá segir Grímur Sæmundsen, forstjóri, að hjá fyrirtækinu hafi verið markvisst unnið að því að hækka tekjur af hverjum gesti frekar en að fjölga þeim. „Við erum því í sjálfu sér ekki að gera ráð fyrir auknum fjölda gesta heldur munum við þróa vöruframboð t.a.m. með því að tvinna saman ólíka þjónustuþætti, vörur og upplifun gesta. Hér er ég að vísa til upplifunarsvæða okkar, veitingasstaða, hótela og húðvara. Þá höfum við nýverið stofnað fyrirtæki sem býður uppá áætlunarferðir í Bláa Lónið sem fer vel af stað. Vöruframboð okkar hefur þannig breikkað nokkuð á síðustu mánuðum og í því felast fjölmörg tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar,“ segir Grímur.

Styrkja beint samband við viðskiptavini

Aukin umsvif erlendra bókunarfyrirtækja innan ferðaþjónustunnar hafa verið þónokkuð til umræðu síðustu misseri. Ekki aðeins vegna hinnar háu söluþóknunar sem þau krefjast heldur einnig áhrifanna sem þau geta haft á ferðahegðun fólks. Á þessu hefur Grímur meðal annars vakið máls á og hvatt forsvarsfólk íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja til sóknar í hinum stafræna heimi sem hefur eflst umtalsvert síðustu ár. En hafa aðgerðir Bláa lónsins sjálfs, til að draga úr þóknunum til endursöluaðila, skilað árangri? „Áhrifin af þessum breytingum eiga eftir að koma betur í ljós þegar líða tekur á árið en fyrstu tölur benda til þess að við séum að ná markmiðum okkar með þessum aðgerðum. Við erum að vinna markvisst að því að þróa stafrænar dreifileiðir Bláa Lónsins og styrkja þannig beint samband okkar og viðskiptavinanna, en við erum þegar í beinu sambandi við flesta okkar gesti þar sem þeir bóka miða í Bláa Lónið með góðum fyrirvara. Í þessu felast tækifæri og vöruframboð okkar mun klárlega taka mið af því á næstu misserum,” segir Grímur.

Bláa lónið skilaði 3,7 milljarða króna hagnaði á síðasta ári samkvæmt ársskýrslu fyrirtækisins sem birt var fyrir helgi. Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að síðasta ár hafi verið ár uppbyggingar og breytinga. Er þar vísað til umbóta á baðsvæði lónsins, stækkunar skrifstofuhúsnæðis og mötuneytis starfsmanna og eins var lokahnykkurinn settur á byggingaframkvæmdir á nýju hóteli og upplifunarsvæði; The Retreat at Blue Lagoon Iceland.

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …