Minnkandi pressa á spænskum sólarströndum

Straumurinn hefur legið til Spánar síðustu ár og verðskrár hótelanna við strandlengjuna hafa hækkað. Nú eru breytingar í loftinu.

alicante
Frá Alicante. Mynd: Ferðamálaráð Spánar

Ótryggt ástand í Tyrklandi, Túnís og Egyptalandi hefur ýtt undir ferðir sólþyrstra Evrópubúa til Spánar síðustu ár. Af þeim sökum hefur framboð á gistingu við vinsælustu spænsku sólarstrendurnar ekki verið nægjanlegt og ófáir hóteleigendur hafa nýtt sér stöðuna til að hækka verðið.

Nú er ferðaþjónustan í Tyrklandi og Túnis hins vegar að rétta úr kútnum og að sögn Þórunnar Reynisdóttur, forstjóra Ferðaskrifstofu Íslands, er í dag auðveldara að fá þá gistingu sem óskað er eftir á Spáni. Þórunn segir að verðlag hafi þó ekki almennt lækkað á spænskum hótelum en meira er um sértilboð á ákveðnum dagsetningum eða tímabilum.

Hið óvenju góða vorveður í Skandinavíu hefur líka orðið til þess að eftirspurn eftir sólarlandaferðum hefur dregist saman. Frændþjóðirnar eru nefnilega tíðir gestir á vinsælustu strandstöðunum við Miðjarðarhafið en síðustu vikur hefur lítið selst af ferðum þaðan þar sem hitastigið hefur í sumum tilfellum við hærra í Noregi en á Spáni. Þessi staða hefur komið sér vel fyrir viðskiptavini Ferðaskrifstofu Íslands að sögn Þórunnar því meira hafi losnað af gistingu núna í sumarbyrjun.

Og samkvæmt nýjum tölum Ferðamálastofu þá voru Íslendingar á faraldsfæti í nýliðnum maí. Um 62.800 Íslendingar fóru utan í mánuðinum sem er 22,5 prósent aukning frá maí í fyrra.